Kynningarfundur flóttamannanefndar um móttöku flóttafólks á Akranesi
Akraneskaupstaður, flóttamannanefnd félags- og tryggingamálaráðuneytis og Rauði kross Íslands héldu vel sóttan kynningarfund um móttöku flóttafólks á Akranesi 26. maí 2008. Efnt var til fundarins í ljósi umræðna í sveitarfélaginu vegna væntanlegrar komu flóttafólks til Akraness með haustinu. Stutt erindi voru flutt af Gísla S. Einarssyni, bæjarstjórar Akraness, og Guðrúnu Ögmundsdóttur, formanni flóttamannanefndar. Atli Viðar Thorstensen, fulltrúi Rauða krossins, kynnti fundarmönnum flóttamannahugtakið og lýsti aðstæðum flóttafólksins í búðunum. Jón Kalmansson hélt hugvekju um samkennd og sinnaskipti.
Tveir starfsmenn sveitarfélaga sem hafa tekið á móti flóttafólki í hópum fyrir hönd ríkisins greindu frá reynslu sinni. Hallur Magnússon var félagsmálastjóri á Höfn þegar þar var tekið á móti flóttafólki árið 1997 og Hjördís Árnadóttir var félagsmálastjóri í Reykjanesbæ þegar þangað komu flóttamenn vorið 2001. Bæði lýstu jákvæðri reynslu þar sem flest gekk vel, en mikilvægast er að mati þeirra að samhugur ríki meðal íbúanna og einlægur vilji til að láta móttökuna takast vel. Með þeim hætti verða hinir nýju íbúar fljótt virkir þátttakendur í samfélaginu og var bent á að allir flóttamennirnir sem fluttust til Reykjanesbæjar búa þar enn.
Það var í senn áhrifamikið og heillandi að heyra Dragönu Zastavinkovic segja frá aðstæðunum sem urðu til þess að líf hennar gjörbreyttist í Króatíu, reynslu sinni sem flóttakonu og hinum hlýju móttökum á Íslandi þar sem hún „endurfæddist“. Dragana er króatískur Íslendingur sem kom til Íslands í fyrsta flóttamannhópnum sem settist að á Ísafirði 2006.
Í framhaldi voru almennar umræður. Nokkrar áhyggjuraddir heyrðust og lagðar spurningar fyrir frummælendur um ýmis atriði, svo sem húsnæðismál, sem bæjarstjóri svaraði greiðlega. Mun fleiri jákvæðar raddir heyrðust og mátti ekki annað ráða af hljóðinu í fundarmönnum að Akurnesingar séu staðráðnir í að taka vel á móti flóttafólkinu og óskuðu fundarmenn meðal annars eftir því að fá tækifæri til að gerast stuðningsaðilar.
Á fundi flóttamannanefndar 27. maí síðastliðinn kom fram að nefndin heldur fast við að vinna áfram með bæjarstjórn Akraness og starfsfólki félagsþjónustunnar að móttöku flóttafólks frá Al-Waleed flóttamannabúðunum.