Samningur um kolefnisbindingu vegna bílaflota ríkisins
Forsætisráðuneytið hefur samið við Kolvið um kolefnisbindingu vegna losunar koltvísýrings frá vélknúnum ökutækjum í eigu ríkisins í ár. Áætlað er að losun frá ökutækjunum verði um 9.000 tonn af CO2 á þessu ári. Til að binda samsvarandi magn kolefnis mun Kolviður gróðursetja um 84.000 plöntur á gróðursnauðum Geitasandi á Rangárvöllum.
Markmið ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum er að minnka nettólosun um 75% fyrir árið 2050. Eitt af markmiðum íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum er að stuðla að aukinni bindingu kolefnis úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu, endurheimt votlendis og breyttri landnotkun. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að við endurnýjun á bílaflota ríkisins verði horft til vistvænni ökutækja sem losa minna magn gróðurhúsalofttegunda. Með þessum samningi vilja stjórnvöld bæta óhjákvæmilega losun bílaflota ríkisins með kolefnisbindingu í skógrækt og landgræðslu