Tímabundin þjónustumiðstöð
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun, 30. maí, tillögu Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, um að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kæmi á laggirnar, í samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, tímabundinni þjónustumiðstöð fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi 29. maí 2008.
Að miðstöðinni koma Árborg, Ölfus, Hveragerði, sveitarfélögin í Flóa og Grímsnesi, Viðlagatrygging, Rauði krossinn, landlæknir og aðrir, sem veita íbúum á svæðinu þjónustu vegna jarðskjálftanna. Við stofnun þjónustumiðstöðvarinnar átti almannavarnadeild ríkislögreglustjóra samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Íbúar á jarðskjálftasvæðinu geta leitað til þjónustumiðstöðvarinnar eftir hvers kyns aðstoð í tengslum við afleiðingar skjálftans. Þar verður m.a. veitt liðsinni vegna tryggingamála hvort sem um er að ræða tjón sem Viðlagatrygging bætir eða almenn tryggingafélög. Einnig mun þjónustumiðstöðin leggja lið varðandi tryggingabætur og mat á tjóni vegna jarðskjálftans. Þá verður veitt áfallahjálp á vegum þjónustumiðstöðvarinnar.
Þjónustumiðstöðin mun eiga samvinnu við sveitarfélögin varðandi það tjón sem þau hafa orðið fyrir og samhæfa vinnu við að takast á við afleiðingar skjálftans auk söfnunar upplýsinga og gagna.
Markmiðið er að tryggja félagslega og fjárhagslega velferð og heilsu íbúa, og virkni samfélagsins. Þjónustumiðstöðin annast miðlun nauðsynlegra upplýsinga og kallar til sérfræðiþekkingu, þegar það á við.
Reykjavík 30. maí 2008