Hoppa yfir valmynd
30. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Við þinglok

Fjögur frumvörp félags- og tryggingamálaráðherra voru samþykkt sem lög frá Alþingi við þinglok í gær auk tveggja þingsályktunartillagna.

Þetta eru í fyrsta lagi ný heildarlög um frístundabyggð sem hafa það meginmarkmið að bæta réttarstöðu leigutaka lóða undir frístundahús við lok leigusamnings, í öðru lagi var samþykkt breyting á lögum um almannatryggingar er lýtur að hækkun frítekjumarks örorkulífeyrisþega. Í þriðja lagi var samþykkt breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem gerðar eru margvíslegar breytingar, meðal annars vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum. Í fjórða lagi voru samþykktar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem meðal annars fela í sér að viðmiðunartímabil við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði breytist þannig að nú verður miðað við meðaltal heildarlauna foreldris yfir tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns í stað tveggja heilla tekjuára fyrir fæðingu barns í núverandi lögum.

Jafnframt voru tvær þingsályktunartillögur sem félags- og tryggingamálaráðherra lagði fram á Alþingi samþykktar. Annars vegar þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til ársins 2010 og hins vegar þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta