Upphaf starfsemi Varnarmálastofnunar Íslands
Forsætisráðherra, alþingismenn, sendiherrar erlendra ríkja/Ambassadors, starfsfólk Varnarmálastofnunar Íslands, góðir gestir.
Þegar bandaríski herinn fór héðan af Miðnesheiði í september árið 2006 eftir ríflega 55 ára dvöl, lauk löngum og umdeildum kafla í sögu lýðveldisins. Nú stöndum við á tímamótum því hafinn er nýr kafli þar sem við Íslendingar berum í fyrsta skipta sjálfstæða ábyrgð á eigin öryggi og vörnum. Ísland sem fullvalda ríki hefur nú óskorað forræði yfir þessum mikilvæga málaflokki, og það er okkar að skrifa söguna.
Stefnan í öryggis- og varnarmálum er skýr: Ísland er og verður herlaust land og sú grundvallarafstaða stendur óhögguð. Ísland vopnbýst ekki, herjar á engan en gætir landhelgi sinnar og lofthelgi. Öryggi Íslands er best tryggt með virku samstarfi við önnur ríki, og til þess samstarfs göngum við nú á jafnréttisgrundvelli með sameiginlega hagsmuni að leiðarljósi, á sjálfstæðum forsendum.
***
Varnarmálastofnun Íslands sem tekur formlega til starfa í dag er skýr birtimynd þessa nýja sjálfstæðis. Eitt af meginhlutverkum hennar er að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.
Nýrri Varnarmálastofnun er ennfremur falin framkvæmd margvíslegra verkefna sem eru hluti af skuldbindingum okkar vegna aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu. Þessi verkefni eru m.a. rekstur og viðhald mannvirkja NATO á Íslandi, umsjón og framkvæmd æfinga og samskipti við erlend herlið, og að vinna upplýsingar úr kerfum NATO, sem m.a. nýtast til að tryggja öryggi íslenskra ríkisborgara á hættusvæðum.
***
Annar mikilvægur þáttur í því að axla ábyrgð á öryggi og vörnum Íslands eftir brottför Bandaríkjahers var setning varnarmálalaga. Í lögunum er skýrt kveðið á um ábyrgð í málaflokknum, og skilið á milli verkefna sem lúta að innra öryggi annars vegar, og ytra öryggi og vörnum og varnarsamskiptum við önnur ríki hins vegar.
Þessi aðskilnaður er mikilvægur réttaröryggi okkar Íslendinga. Hvergi í hinum vestræna heimi hefur verið farin sú leið að blanda varnartengdum verkefnum sem lúta að hugsanlegum ytri ógnum saman við löggæslu innanlands, almannavarnir eða önnur innri öryggismál. Það er heldur ekki gert hér á landi með því fyrirkomulagi sem nú er orðið að veruleika.
***
Þó vissulega hafi gustað nokkuð um frumvarpið til varnarmálalaga í meðförum Alþingis, þá var ánægjulegt að breið sátt skapaðist um lögin við samþykkt þeirra, en þorri þingmanna veitti þeim stuðning sinn við lokaafgreiðslu. Þetta er góður vitnisburður um að umræðuhefð og átakalínur kalda stríðsins eru á undanhaldi.
Þau sjónarmið hafa heyrst í umræðu um varnarmálalögin að allt starf að ytra öryggi og vörnum Íslands sé ónauðsynlegt, enda sé hér enginn óvinur. Þá hefur kostnaður verið gagnrýndur og kvartað yfir að íslenska lofteftirlitskerfið og öryggissamstarf Íslands við önnur ríki sé of dýrt. Um fyrra atriðið vil ég segja að í dag er það svo að ríki í okkar heimshluta gæta öryggis síns burtséð frá mögulegri óvinahættu, og byggja upp viðbúnað án þess að þær miði við hefðbundin ríkjaátök. Í þessu felst engin þversögn. Þvert á móti felst í því hugsanavilla að segja að öryggi krefjist óvinar. Öryggisstefna ríkja skilar mestum árangri þegar hún ýtir undir virkt samstarf og traust milli ríkja, og kemur í veg fyrir úreltar staðalmyndir um vini og óvini.
Í dag lúta öryggisþarfir ríkja að stórum hluta að vöktun landhelgi og lofthelgi. Það á við um Ísland jafnt sem önnur ríki, og þannig felast í loftrýmiseftirliti okkar skýr skilaboð til umheimsins um að Ísland taki fullveldi sitt alvarlega og gæti þess á landi, láði og legi.
Að sama skapi myndi engin vöktun og ekkert eftirlit gefa til kynna að viðkomandi svæði sé öllum opið, óvaktaður almenningur og nánast einskismanns land. Ljóst er að slíkar aðstæður væru okkur Íslendingum óásættanlegar, enda fer tómarúm illa saman við öryggi lands og þjóðar. Þessu samsinna grannríki okkar, enda var það sameiginleg ákvörðun NATO að hér væri virkt loftrýmiseftirlit og regluleg gæsla.
Um síðara atriði þeirrar gagnrýni sem heyrst hefur, þ.e. kostnað vegna öryggis okkar og varna, vil ég undirstrika, eins og ég hef margsinnis gert á Alþingi, að vissulega er um kostnaðarsöm verkefni að ræða. Einmitt þess vegna hef ég sem utanríkisráðherra lagt mig fram um að gæta fyllsta hagræðis og leita eftir samlegðaráhrifum þar sem þau er að finna. Og þeirri vinnu verður framhaldið að leita sem hagkvæmastra leiða til að standa við skuldbindingar okkar gagnvart öðrum þjóðum, og tryggja um leið öryggi Íslendinga. Í þeim efnum þarf að vanda vel til verka og finna hið eðlilega jafnvægi kostnaðaraðhalds annars vegar og fyllstu fagmennsku hins vegar.
En gagnrýni í þá veru að við þurfum yfirhöfuð ekki að huga að eigin vörnum og öryggi, eða að við þurfum varnir en eigum að láta aðra borga - henni vísa ég á bug.
***
Rétt er að hafa í huga að öryggis- og varnarmál eru í eðli sínu síbreytilegt langtímamál, þar sem horfa ber til áratuga, ekki mánaða eða ára. Þó friðsamlegra sé í okkar heimshluta en lengst af á síðustu öld, þá kennir reynslan okkur að skjótt skipast veður í lofti. Við vitum einfaldlega ekki hvaða aðstæður kunna að verða uppi hér á norðurslóðum eftir 10-20 ár, hvað þá eftir 30-40 ár.
Af þessum sökum er mikilvægt að Ísland hugi ekki einungis að sínu sértæka öryggi í sínu nágrenni, heldur taki einnig virkan þátt í milliríkjasamstarfi á sviði hnattrænna öryggismála, hvort sem er tvíhliða við einstök ríki eða á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.
Þar getur Ísland talað máli mannréttinda, aukinna þróunarsamvinnu, og friðsamlegra lausna deilumála á grundvelli þjóðarréttar. Ísland getur og á að hvetja til afvopnunar og annarra aðgerða til að draga úr hættunni á að ónauðsynleg spenna myndist ríkja í millum. Virk utanríkisstefna af því tagi er ótvírætt í þjóðarþágu.
***
Góðir gestir,
Það er mikilvægt að áfram fari fram þróttmikil umræða um grundvallaratriði íslenskra öryggismála. Þegar þau mál eru annars vegar hafa stjórnmálamenn víðast um heim hafið sig upp úr dægurþrasi og pólitískri tækifærismennsku og sameinast um að verja grundvallarþjóðarhagsmuni. Það ættum við Íslendingar líka að gera og ég er viss um að mikil sátt mun skapast um starfsemi Varnarmálastofnunar Íslands á komandi árum.
Ég hef áður sagt að utanríkisstefna 21. aldar verði ekki byggð á hjásetu eða sérhagsmunum. Í þeim orðum felst að Ísland geti ekki lengur, og eigi ekki lengur, að fela öðrum að gæta hagsmuna sinna. Þvert á móti eigi íslensk þjóð að vera virk í samstarfi við önnur ríki og leggja þar sitt af mörkum á móti því sem við þiggjum af hálfu nágrannaþjóða okkar og bandamanna.
Með því að reka íslenska loftvarnarkerfið og sjá um önnur þau eftirlits- og varnartengdu verkefni sem nýstofnsett Varnarmálastofnun á að sinna erum við Íslendingar í senn að axla ábyrgð á eigin vörnum og um leið að leggja til sameiginlegs öryggis grannríkja okkar á Norður-Atlantshafi og bandalagsríkja í NATO. Þannig rækjum við skyldur okkar sem sjálfstætt, fullvalda ríki, jafnt gagnvart okkur sjálfum sem heimsbyggðinni allri.
Ég vil óska landsmönnum til hamingju með tilkomu Varnarmálastofnunar Íslands og starfsfólki hennar og forstjóra, Ellisif Tinnu Víðisdóttur, óska ég velfarnaðar í þeim mikilvægu störfum og miklu uppbyggingar sem bíða þeirra.