Kynningarfundur um íslenskukennslu fyrir útlendinga
Verkefnisstjórn menntamálaráðuneytis um íslenskukennslu fyrir útlendinga heldur kynningarfund um stöðu verkefnisins þriðjudaginn 3. júní nk. kl. 14:00 – 16:00 í Rúgbrauðsgerðinni að Borgartúni 6 í Reykjavík.
Ríkisstjórnin samþykkti 10. nóvember 2006 að verja 100 m.kr. til íslenskukennslu fyrir útlendinga árið 2007 og að fela menntamálaráðuneyti umsjón verksins. Sérstök verkefnisstjórn var skipuð vegna þessa. Vegna mikillar eftirspurnar eftir styrkjum til námskeiðahaldsins ákvað ríkisstjórnin í júní 2007 að veita 100 m.kr. til viðbótar til íslenskukennslu fyrir útlendinga árið 2007. Alþingi samþykkti síðan 200 m.kr. framlag á fjárlögum til íslenskukennslu fyrir útlendinga árið 2008.
Verkefnisstjórnin mun kynna greinargerð um framgang verkefnisins árið 2007 og það sem af er árs 2008. Jafnframt verða kynntar niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var fyrr á þessu ári meðal styrkþega ársins 2007. Að loknum kynningum og framsöguerindum verða almennar umræður um næstu skref í íslenskukennslu fyrir útlendinga.
- Íslenska með hreim er líka íslenska: Greinargerð verkefnisstjórnar um íslenskukennslu fyrir útlendinga: Staða verkefnis í maí 2008 (PDF - 1MB)
- Könnun á ráðstöfun styrkja til íslenskukennslu fyrir útlendinga: Unnið fyrir verkefnisstjórn menntamálaráðuneytis um íslenskukennslu fyrir útlendinga (PDF - 420KB)