Hoppa yfir valmynd
2. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tíu ára jafnréttissamstarf

Fundur í Eistlandi um jafnréttismál
Fundur í Eistlandi um jafnréttismál

Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hafa átt farsælt samstarf á sviði jafnréttismála í tíu ár. Þessum áfanga var fagnað á fundi jafnréttisráðherra landanna í Kuressaare í Eistlandi þriðjudaginn 27. maí síðastliðinn. Maret Maripuu, jafnréttisráðherra Eistlands, var gestgjafi en Nyamko Sabuni, jafnréttisráðherra Svíþjóðar, stýrði fundi ráðherranna. Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, var fulltrúi Íslands á fundinum.

Baráttan gegn vændi, mansali, ofbeldi gegn konum og vinna að jafnrétti á vinnumarkaði og innan heimilisins voru meginviðfangsefni fundarins. Samvinna landanna hefur verið mikilvæg og gagnleg. Samþykkt var að halda samstarfinu áfram með sérstakri áherslu á samstarf varðandi mansal. Félags- og tryggingamálaráðherra skipaði í janúar síðastliðnum sérstakan starfshóp sem hefur það hlutverk að fjalla um með hvaða hætti standa megi að gerð og framkvæmd heildstæðrar áætlunar um aðgerðir gegn mansali á Íslandi. Tilgangurinn er að koma betra skipulagi á þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að koma í veg fyrir mansal hér á landi. Fjallað var um aðgerðaáætlanir gegn mansali hjá löndunum og gerð var grein fyrir stöðu mála hér á landi. Sérstök áhersla var lögð á skipulagða og örugga endurkomu fórnarlamba til heimalands síns. Framundan er að meta árangur þeirra mansalsverkefna sem eru í gangi. Það var einróma niðurstaða fundarins að aðgerðir í hverju landi fyrir sig dugi ekki einar og sér heldur sé grundvallaratriði að samstarf sé til staðar milli landanna.

Samþætting fjölskyldu og atvinnulífs var einnig í brennidepli og þá sérstaklega aðgerðir til styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði. Fæðingarorlofið á Íslandi og öflug þátttaka karla í umönnun ungra barna á Íslandi var miðpunktur umræðna. Öll Eystrasaltsríkin hafa nýlega ýmist endurbætt löggjöf um fæðingarorlof eða sett nýja. Víða á Norðurlöndunum eru aðgerðir í undirbúningi til að freista þess að fá fleiri karla til að taka fæðingarorlof.

Jafnrétti hluti af hnattvæðingarferlinu

Norrænn jafnréttisráðherrafundur miðvikudaginn 28. maí síðastliðinn fjallaði um mikilvægi þess að samþætta jafnréttismál umfjöllun um hnattvæðinguna. Norrænu forsætisráðherrarnir ákváðu á fundi sínum í Punkaharjuu árið 2007 að hnattvæðingarferlið yrði meginviðfangsefni norræns samstarfs á næstu árum.

Á jafnréttisráðherrafundinum var einhugur um nauðsyn þess að jafnrétti verði hluti af hnattvæðingarumræðunni. Vændi og mansal, jafnrétti á vinnumarkaði, nýsköpun og margbreytileiki og loftslagsbreytingar eru mikilvæg jafnréttismál í hnattvæðingarferlinu.

 

Jafnrétti og loftslagsmál

Á norræna jafnréttisráðherrafundinum var undir forystu Dana fjallað sérstaklega um jafnrétti og loftslagsumræðuna. Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra hafa ólík áhrif á konur og karla. Það sama á við um þá þætti sem hafa áhrif á loftslagsbreytingar. Konur menga minna, nota meira almenningssamgöngur svo dæmi sé tekið. Á fundinum var lögð áhersla á að konur taki jafnan þátt í stefnumörkun og ákvörðunartöku varðandi loftslagsmál. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin í Kaupmannahöfn á næsta ári. Ákveðið var að undirbúa og koma á umræðu samhengi jafnréttis- og loftslagsmála.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta