Hoppa yfir valmynd
7. júní 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vatnajökulsþjóðgarður stofnaður

Merki Vatnajökulsþjóðgarðs
Merki Vatnajökulsþjóðgars

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður við formlega athöfn í dag. Af því tilefni sóttu um 400 manns stofnhátíð í Gljúfrastofu í Jökulsárgljúfrum, á Skriðuklaustri í Fljótsdal, í Skaftafellsstofu í Skaftafelli og í Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri. Þjóðgarðurinn er 12.000 ferkílómetrar að stærð og er því stærsti þjóðgarður Evrópu. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sagði í ávarpi sínu í Skaftafelli að með stofnun þjóðgarðsins réðust Íslendingar í stærsta náttúruverndarverkefni frá upphafi. Þá sagði umhverfisráðherra einnig að væntingar stæðu til þess að þjóðgarðurinn stækki á næstu misserum og árum, og nú stæðu yfir viðræður við landeigendur og sveitarfélög þess efnis. Hún væri m.a. afar bjartsýn um að hin sérstaka náttúra svæðisins við Langasjó og Eldgjá yrði hluti þjóðgarðsins að ári.

Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir um 12.000 ferkílómetra svæði eða um 12 prósent af flatarmáli landsins og er þar með stærsti þjóðgarður Evrópu. Landssvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er óvenjulega mikil og innan væntanlegra þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a ósnortin víðerni. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs munu Íslendingar ráðast í stærsta náttúruverndarverkefni þjóðarinnar frá upphafi. Stofnun þjóðgarðsins er einnig eitt stærsta atvinnusköpunar- og byggðaþróunarverkefni sem stjórnvöld hafa tekist á hendur í þessum hluta landsins.

Vatnajökulsþjóðgarður mun í fyrstu ná til alls þjóðgarðsins í Skaftafelli svo og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum auk nánast alls Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans, að vestan, norðan, austan og sunnan. Meðal þess eru Tungnafellsjökull, Vonarskarð, Hágönguhraun og Veiðivatnahraun, vestan Vatnajökuls og Vesturöræfi, Snæfell, Eyjabakkar og hluti Hrauna, norðan Vatnajökuls. Land í Vatnajökulsþjóðgarði verður að mestu í  eigu ríkisins, en einnig munu nokkur landsvæði í einkaeigu verða hluti af þjóðgarðinum við stofnun hans. Auk þess mun stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs taka að sér í umboði Umhverfisstofnunar rekstur nokkurra friðlýstra svæða í nágrenni þjóðgarðsins, svæða sem í framtíðinni er reiknað með að verði hluti þjóðgarðsins. Gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður muni stækka frekar á næstu misserum og árum. Viðræður við landeigendur og sveitarfélög um önnur landsvæði en þau sem nú er ákveðið að verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs við stofnun hafa farið fram.

Þjónustunet þjóðgarðsins

Þjónustunet þjóðgarðsins verður byggt á þremur grunneiningum.  Gestastofur verða meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins.  Þar verður starfsaðstaða þjóðgarðsvarða, sýningarrými þjóðgarðsins, upplýsingagjöf og fræðsla, og menningarviðburðir af ýmsu tagi.   Í dag eru  starfræktar gestastofur í Skaftafelli og í Ásbyrgi, og hefur í vor verið unnið að endurbótum á báðum stofum. Í framhaldi af nýyfirstaðinni arkitektasamkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands er verið að undirbúa byggingu fyrstu nýju gestastofunnar að Skriðuklaustri og munu framkvæmdir við hana hefjast í sumarlok. Áætlað er að byggðar verði þrjár gestastofur til viðbótar á næstu árum: á Kirkjubæjarklaustri, við Mývatn og í nágrenni/við Höfn í Hornafirði, þ.e.a.s.  ein á hverju rekstrarsvæði þjóðgarðsins.  Allar gestastofurnar munu bera ákveðið minni þjóðgarðsins.

Í sumar verður landvörlsu innan marka þjóðgarðsins og svæðum í umsjá stjórnarinnar sinnt á níu stöðum auk Skaftafells og Jökulsárgljúfra þ.e. í Herðubreiðarlindum og Öskju, Hvannalindum, Kverkfjöllum, Snæfelli, í Lóni og Lónsöræfum, við Lakagíga, frá Hrauneyjum og í Nýjadal á Sprengisandi. Um rekstur þeirra hefur stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs að mestu farið þá leið að gera þjónustusamninga við ferðafélög og aðra aðila til að nýta þá uppbyggingu og þekkingu sem fyrir er á svæðunum. Upplýsingamiðstöðvar verða í jaðri garðsins og um rekstur þeirra verða einnig gerðir þjónustusamningar við þá rekstraraðila sem þegar eru fyrir á svæðunum til að sinna upplýsingagjöf og fræðslu um þjóðgarðinn.

Fastir starfsmenn við stofnun eru þrír þjóðgarðsverðir -  einn í  Skaftafelli, einn í Jökulsárgljúfrum og einn á Skriðuklaustri. Auk þess starfa alls fjórir sérfræðingar í Skaftafelli, Jökulsárgljúfrum og á Kirkjubæjarklaustri. Nýráðinn er einnig framkvæmdastjóri. Búið er að ráða tæplega 40 sumarstarfsmenn til landvörslu. Áætlað er að rekstarkostnaður 2008 verði um 176 milljónir króna. Áætlaður framkvæmdakostnaður er 160,5 milljónir króna, þar af er kostnaður við fyrsta áfanga gestastofu á Skriðuklaustri um 60 milljónir, en auk þess var ráðist í endurbætur bæði í Skaftafelli og í Jökulsárgljúfrum, sem áætlað er að muni kosta um 40 milljónir króna. Kostnaður við gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn á þessu ári er áætlaður um 25 milljónir króna. Á árinu 2009 verða ráðnir tveir þjóðgarðsverðir til viðbótar, annar á Kirkjubæjarklaustri  og hinn við Mývatn. Mikil þörf er fyrir sérfræðiþekkingu þeirra á svæðunum. Stóraukinn ferðamannastraumur kallar á sterkari innviði, aukna þjónustu og meiri fræðslu. Einnig er stefnt að aukinni landvörslu innan þjóðgarðsins. Lokið verður við uppbyggingu gestastofu á Skriðuklaustri á árinu 2009 og ráðgert er að hefja  framkvæmdir  við byggingu nýrrar gestastofu á Kirkjubæjarklaustri það ár. Þá verður hafinn undirbúningur að rekstri upplýsingastöðva yfir sumartímann á nokkrum stöðum og  um þær gerðar þjónustusamningar við heimamenn.

Samkvæmt áætlunum mun fjöldi ferðamanna aukast a.m.k. 7% vegna hans til ársins 2012 og viðbótargjaldeyristekjur 2020 nema 11 milljörðum króna. Störfum í ferðaþjónustu mun fjölga um 150 á næstu fjórum árum og fjöldi starfa mun verða til innan þjóðgarðsins sjálfs.

Vandaður undirbúningur og pólitísk samstaða

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður að tillögu ríkisstjórnar með sérstökum lögum frá Alþingi. Undirbúningur að stofnun þjóðgarðsins hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Vorið 1999 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu þar sem umhverfisráðherra var falið að kanna möguleika á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Í kjölfarið skipaði umhverfisráðherra starfshópa og nefndir sem undirbjuggu stofnun þjóðgarðsins, þar á meðal nefnd sem í sátu fulltrúar þingflokka á Alþingi, þau Arnbjörg Sveinsdóttir, Magnús Stefánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Sú nefnd skilaði áliti vorið 2004. Það var síðan í ársbyrjun 2005 sem ríkisstjórnin samþykkti að fela umhverfisráðherra að vinna áfram að undirbúningi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, m.a. á grundvelli tillagna frá þingmannanefndinni. Var honum falið að vinna þennan undirbúning í nánu samráði við heimamenn og aðra hagsmunaaðila og vinna heildstæðar tillögur fyrir Vatnajökulsþjóðgarð sem taki til jökulhettunnar og aðliggjandi jaðarsvæða, bæði norðan og sunnan Vatnajökuls.

Sigríður Anna Þórðardóttir, þáverandi umhverfisráðherra, skipaði nefnd sem í sátu fulltrúar sveitarfélaga sem fara með stjórnsýslu á svæði Vatnajökulsþjóðgarðs og fulltrúi umhverfisverndarsamtaka undir stjórn Magnúsar Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins. Nefndin skilaði tillögum sínum til Jónínu Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, í nóvember 2006. Hún mælti síðan fyrir frumvarpi um Vatnajökulsþjóðgarð í byrjun þessa árs og var það samþykkt á Alþingi í mars.

Stjórn þjóðgarðsins

Ríkisstofnunin Vatnajökulsþjóðgarður lýtur sjö manna stjórn skipaðri af umhverfisráðherra. Fjórir af sjö stjórnarmönnum, þ.e. formenn svokallaðra svæðisráða þjóðgarðsins koma úr röðum heimamanna úr sveitarfélögunum sem liggja að þjóðgarðinum. Einn fulltrúi umhverfisverndarsamtaka situr í stjórn og formaður og varaformaður eru skipaðir af umhverfisráðherra án tilnefningar. Þá situr fulltrúi útivistarsamtaka í stjórninni með málfrelsi og tillögurétt. Þjóðgarðurinn skiptist í fjögur rekstrarsvæði og á hverju svæði er starfandi sérstakt svæðisráð sem í sitja sex fulltrúar: Þrír fulltrúar tilnefndir af sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem eru á viðkomandi rekstrarsvæði, einn fulltrúi tilnefndur af ferðamálasamtökum á viðkomandi svæði, einn fulltrúi tilnefndur af útivistarsamtökum og einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum. Svæðisráðin eru stjórn til ráðgjafar í ýmsum málum, svo sem  gerð verndaráætlunar fyrir svæðið, rekstraráætlunar og ráðningu þjóðgarðsvarða.

Kort af Vatnajökulsþjóðgarði við stofnun.

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta