Hoppa yfir valmynd
9. júní 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tillögur um skattlagningu eldsneytis og ökutækja

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 5. júní 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Eins og fram hefur komið hefur starfshópur fjármálaráðherra skilað af sér skýrslu um heildarstefnumótun skattlagningar eldsneytis og ökutækja.

Í skýrslu starfshópsins er unnið út frá núgildandi fjórum stoðum í skattlagningu ökutækja og eldsneytis, þ.e. stofngjald (vörugjald af ökutækjum), árgjald (bifreiðagjald), eldsneytisgjald (bensíngjald og olíugjald) og notkunargjald á stór ökutæki (kílómetragjald). Ný og samræmd skattlagning ökutækja og eldsneytis nær til allra þessara þátta og eðli máls samkvæmt eru margir valkostir færir varðandi útfærslur.

Í tillögum starfshópsins er lagt til að íslensk stjórnvöld feti svipaðar brautir og nágrannaþjóðir okkar hafa gert í baráttunni gegn aukinni losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum, þ.e. að tengja skattlagningu í ofangreindum flokkum við losun á koltvísýringi (CO2). Samræmd skattlagning í þá veru felur í sér upptöku losunargjalda á ökutæki, í stað vörugjalds og bifreiðagjalds, og upptöku kolefnisskatts á jarðefnaeldsneyti. Valkostir við útfærslu slíkrar heildarskattlagningar felast í samspili þessara fjögurra stoða. Sem dæmi má nefna tilfærslu á skattbyrði frá ökutækjum yfir á eldsneyti eða öfugt, tilhögun frávika frá stofngjaldi, árgjaldi, notkunargjaldi og eldsneytissköttum, stofn og dreifing losunargjalds og kolefnisskatts og afmörkun tekna af skattlagningunni. Er farið ítarlega yfir þessa valkosti í skýrslunni, kosti þeirra og galla, með það að leiðarljósi að búa til traustan grunn fyrir frekari ákvarðanatöku.

Skattlagningu er að þessu leyti beitt sem hagrænu stjórntæki og ljóst er að margar misgóðar leiðir eru færar til að reyna að ná þeim umhverfislegu markmiðum sem starfshópnum voru sett. Í tillögum starfshópsins er í framhaldi af umfjöllun um valkosti og útfærslur lögð til ákveðin tilfærsla á skattlagningu frá ökutækjum yfir á eldsneyti á þann hátt að tekjur ríkissjóðs verði því sem næst óbreyttar. Áætlað er að með tillögu starfshópsins náist fram lækkun á meðallosun gróðurhúsalofttegunda frá nýjum fólksbílum úr 194 gCO2/km í 183 gCO2/km á sama tíma og stuðlað er að aukinni notkun vistvænna ökutækja og óhefðbundinna orkugjafa og tryggðar tekjur til vegagerðar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta