Mat á þörf aldraðra fyrir dvalarrými
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur sett nýja reglugerð um mat á þörf aldraðra fyrir dvalarrými.
Reglugerðin er sett með stoð í lögum um málefni aldraðra. Í henni er kveðið á um hvernig staðið skuli að því að meta þörf fólks 67 ára og eldra fyrir varanlega búsetu í dvalarrými á stofnunum fyrir aldraða. Stofnunum er óheimilt að bjóða fólki búsetu í dvalarrými nema áður hafi farið fram mat á þörf fyrir slíkt úrræði í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Áhersla er lögð á að fólki skuli gert kleift að búa heima eins lengi og mögulegt er með viðunandi þjónustu og felst matið meðal annars í athugun á því hvort öll úrræði til stuðnings fólki í heimahúsum hafi verið fullreynd.
Í hverju heilbrigðisumdæmi skal einn félagsráðgjafi og einn hjúkrunarfræðingur, báðir skipaðir af félags- og tryggingamálaráðherra, sinna gerð matsins í samvinnu við annað fagfólk. Ábyrgð þeirra felst meðal annars í því að afla allra áskilinna gagna og upplýsinga og sjá til þess að fagleg sjónarmið ráði ferðinni við matsgerðina.
Beiðni um mat á þörf fyrir dvalarrými skal aðeins lögð fram telji hinn aldraði að hann sé ekki fær um að búa áfram á heimili sínu, þrátt fyrir heimaþjónustu, heimahjúkrun eða aðra þjónustu og stuðning sem honum stendur til boða. Beiðnin skal vera skrifleg á eyðublöðum sem gefin eru út af félags- og tryggingamálaráðuneytinu og verða þau aðgengileg hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna. Sá sem sækir um mat á þörf fyrir dvalarrými skal senda beiðnina til félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem hann er búsettur.
Miðað er við að alla jafna líði ekki meira en sex vikur frá því að beiðni berst um mat á þörf fyrir dvalarrými þar til niðurstaða liggur fyrir. Niðurstaðan skal kynnt skriflega fyrir umsækjanda. Ef niðurstaða matsins er sú að hann þurfi á dvalarrými að halda skal fulltrúi félagsþjónustunnar í sveitarfélaginu þar sem viðkomandi býr kynna honum hvaða dvalarrými kunni að standa til boða og taka við óskum hans um mögulegan dvalarstað.
Gildistími mats er níu mánuðir frá staðfestingu þess. Þegar gildistími mats rennur út skal það kynnt fyrir þeim sem hlut eiga að máli og kannað hvort þörf sé fyrir endurmat.
Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur sent bréf til félagsþjónustu sveitarfélaga og öldrunarstofnana sem reka dvalarrými þar sem reglugerðin er kynnt nánar og veittar ítarlegri upplýsingar um fyrirkomulag matsins.
Reglugerð um mat á þörf aldraðra fyrir dvalarrými nr. 543/2008
Umsókn um mat á þörf aldraðra fyrir dvalarrými (PDF-skjal til útfyllingar, 32KB)
Umsókn um mat á þörf aldraðra fyrir dvalarrými (Word-skjal til útfyllingar, 70KB)