Hoppa yfir valmynd
13. júní 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Loftslagsbreytingar og jarðvegur

Umhverfisráðherra á fundi um loftslagsbreytingar og jarðveg
Loftslagsbreytingar og jarðvegur

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tók þátt í ráðstefnu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um loftslagsbreytingar og jarðveg í Brussel í gær. Umhverfisráðherra tók þátt í ráðstefnunni í boði Stavros Dimas, umhverfisstjóra Evrópusambandsins.

Á ráðstefnunni var sérstaklega fjallað um hvernig binda megi koltvísýring (CO2) í jarðvegi en mikill koltvísýringur hefur losnað úr jarðvegi út í andrúmsloftið á undanförnum áratugum af manna völdum, m.a. þar sem land hefur verið brotið undir ræktun eða annarra nota. Fram kom á ráðstefnunni að jarðvegur skipti verulegu máli við bindingu koltvísýrings til lengri tíma litið. Þá var það samdóma álit fundarins að þegar yrði að hefjast handa við að breyta landnotkun, m.a. yrði að taka tillit til þess við skipulagsgerð.

Sérstaklega var fjallað um ósnortið gróðurlendi á norðurslóðum sem skipti miklu máli að varðveita og ganga ekki frekar á en gert hefur verið. Fram kom í máli fundarmanna að leggja þurfi áherslu á að verndun og endurheimt jarðvegs verði hluti þeirra aðgerða sem gripið verði til í því skyni að draga úr loftslagsbreytingum. Vilji stóð til þess að Evrópusambandið tæki að sér forystuhlutverk á þessu sviði með setningu löggjafar um verndun jarðvegs.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra gerði grein fyrir því árangursríka starfi sem unnið hefur verið á Íslandi við verndun og endurheimt jarðvegs með skipulegri landgræðslu og skógrækt. Einnig gerði ráðherra grein þeirri áherslu sem Ísland hefði lagt á framkvæmd alþjóðasamninga á þessu sviði og nauðsyn þess að tengja framkvæmd samninganna meira saman en gert er, ekki síst vegna mikilvægis þeirra í þróunarlöndunum. Samningarnir sem um ræðir eru samningar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, um eyðimerkurmyndun og um líffræðilegan fjölbreytileika. Ráðherra sagði að binding gróðurhúsalofttegunda í jarðvegi væri ein af þeim lausnum sem grípa yrði til svo draga mætti úr hlýnun loftslags. Ráðherra greindi einnig frá niðurstöðu alþjóðlegrar ráðstefnu um jarðveg sem haldin var á Íslandi í fyrra í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá setningu fyrstu laga um landgræðslu hér á landi. Þar var sérstök athygli vakin á nauðsyn þess að tengja framkvæmd áðurnefndra alþjóðasamninga meira saman en gert er og lagt til að samningur um eyðimerkurmyndun verði tekinn til endurskoðunar og jarðvegsvernd tekin undir samninginn. Umhverfisráðherra sagði það ekki orka tvímælis að verndun og endurheimt jarðvegs skipti verulegu máli til að draga úr loftslagsbreytingum. Sú varð einnig niðurstaða ráðstefnunnar.

Auk umhverfisráðherra sóttu ráðstefnuna þau Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir sendiráðsritari og Ingimar Sigurðsson, fulltrúi umhverfisráðuneytisins í sendiráðinu í Brussel. Um 500 manns sóttu ráðstefnuna frá nær öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna.  



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta