Samningaviðræðum um fríverslunarsamning milli EFTA og Kólumbíu lokið
Samningaviðræðum um fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Kólumbíu lauk í Crans- Montana, Sviss 12. júní. Samningaviðræður stóðu yfir í tæplega eitt ár.
Samningurinn gerir ráð fyrir að tollar á sjávarafurðum og iðnaðarvörum frá Íslandi falli niður frá gildistöku samningsins eða að afloknu 5-10 ára aðlögunartímabili. Jafnframt njóta útflutningsafurðir íslensks landbúnaðar eins og lifandi hross, lambakjöt og vatn tollfrelsis frá gildistöku eða að 10 árum liðnum. Þá munu samningsaðilar lækka eða fella niður tolla af ýmsum unnum landbúnaðarvörum.
Fríverslunarsamningurinn gerir ráð fyrir auknu frjálsræði í þjónustuviðskiptum. Samningurinn nær jafnframt til fjárfestinga og opinberra innkaupa. Enn fremur er að finna ákvæði um verndun hugverkaréttinda, samkeppnismál og um lausn ágreiningsmála.
Samningurinn verður undirritaður við fyrsta tækifæri. Að lokinni undirritun þarf að fullgilda hann í einstökum EFTA-ríkjum og Kólumbíu svo hann öðlist gildi.