Hoppa yfir valmynd
19. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Róttækar aðgerðir í húsnæðismálum

Nýir lánaflokkar hjá Íbúðalánasjóði til að fjármagna íbúðalán fjármálastofnana, hækkun hámarkslána, auknar heimilildir til leiguíbúðalána og breytt viðmið vegna lántöku eru meðal aðgerða sem undirbúnar verða á næstu vikum.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að grípa til sérstakra aðgerða í húsnæðismálum til að auðvelda fólki íbúðakaup, styrkja stöðu íbúðareigenda og efla húsnæðismarkaðinn. Markmiðið er að sporna gegn fjárhagslegum áföllum heimilanna og treysta hagkerfi landsins.

Í samræmi við þetta mun Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, undirbúa eftirfarandi aðgerðir:

  • Stofnaðir verða tveir nýir lánaflokkar hjá Íbúðalánasjóði til að tryggja fjármögnun íbúðalána banka, sparisjóða og annarra fjármálastofnana. Annar þeirra snýr að endurfjármögnun íbúðalána sem þessar stofnanir veita en hinn að fjármögnun nýrra íbúðalána. Skilyrði lánveitinga í þessum flokkum eru að þær séu til þess fallnar að tryggja öryggi og framboð lána og eðlilega verðmyndun á íbúðamarkaði.
  • Brunabótamatsviðmið lánveitinga Íbúðalánasjóðs verður afnumið en þess í stað miðað við allt að 80% af kaupverði eigna. Þessi breyting miðar að því að liðka fyrir viðskiptum með minni eignir á höfuðborgarsvæðinu.
  • Hámarkslán Íbúðalánasjóðs verða 20 milljónir króna í stað 18 milljóna króna.
  • Heimildir til leiguíbúðalána Íbúðalánasjóðs á almennum markaði verða auknar til að breyta söluíbúðum í leiguhúsnæði. Slík lán verða þó aðeins veitt að fyrir liggi óháð mat á því að eftirspurn eftir leiguhúsnæði sé fyrir hendi.
  • Áhersla er lögð á að lánastofnanir komi til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum, svo sem með frystingu lána, skuldbreytingu eða endurfjármögnun. Stefnt er að því að frumvarp um greiðsluaðlögun verði lögfest á næsta þingi.

Skjal fyrir Acrobat ReaderYfirlýsing_ríkisstjórnarinnar (PDF, 10,9KB)



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta