Hoppa yfir valmynd
19. júní 2008 Utanríkisráðuneytið

Stofnun alþjóðlegs jafnréttisseturs og jafnréttisskóla við Háskóla Íslands

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Kristín Ingólfsdóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Kristín Ingólfsdóttir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um samstarf á sviði jafnréttismála. Samstarfið felur í sér stofnun jafnréttisseturs og jafnréttisskóla við Háskóla Íslands með stuðningi ráðuneytisins.

Aukið samstarf við íslenskt háskólasamfélag er hluti af uppbyggingu á þekkingarsamfélagi um þróunarmál á Íslandi. Utanríkisráðuneytið á nú þegar öflugt samstarf við háskóla og rannsóknarstofnanir meðal annars um rekstur á jarðhitaskóla og sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Utanríkisráðuneytið og Háskóli Íslands hafa því ákveðið að efna til samstarfs á sviði jafnréttismála og er ráðgert að jafnréttissetur og jafnréttisskóli verði formlega sett á stofn í nóvember nk. Sérstök áhersla verður lögð á fá til skólans sérfræðinga frá þróunarríkjum.

Gert er ráð fyrir að Rannsóknastofa Háskólans í kvenna- og kynjafræðum (RIKK), sem hingað til hefur verið helsti vettvangur jafnréttisrannsókna hér á landi, verði hluti af hinu nýja jafnréttissetri. Setrinu er ætlað að vera bakhjarl jafnréttisskólans og verða þar meðal annars stundaðar rannsóknir með áherslu á jafnréttismál í þróunarsamvinnu og friðaruppbyggingu sem munu nýtast við kennslu við skólann. Jafnréttisskólinn mun bjóða upp á námskeið fyrir sérfræðinga og aðra sem starfa að jafnréttismálum.

Með þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna hefur áhersla á jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna aukist mjög. Hefur sýnt sig að aukið jafnrétti og ekki síst aukin þátttaka kvenna í ákvarðanatöku og atvinnulífi hefur margfeldisáhrif á félags- og efnahagslega þróun og velferð samfélaga. Á þetta sérstaklega við um þróunarríki og eru jafnréttismál því lykilþáttur í þróunarsamvinnu Íslands.

Háskóli Íslands hefur um árabil verið leiðandi hér á landi í rannsóknum í kynjafræðum og jafnréttismálum. Háskóli Íslands er eini háskólinn hér á landi sem býður upp á sérstakt nám í kynja- og jafnréttisfræðum, en við skólann eru starfræktar námslínur á þessu sviði til BA- og MA-prófs, auk diplómagráðu í hagnýtum jafnréttisfræðum. Nýjasta viðbótin er doktorsnám á sviði kynjafræða.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta