Þróun eldsneytisverðs
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 19. júní 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í skýrslu starfshóps fjármálaráðherra um skattlagningu á ökutæki og eldsneyti (Heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis PDF 1,08 MB) er m. a. fjallað um heimsmarkaðsverð á eldsneyti. Á myndinni er sýnd þróun heimsmarkaðsverðs á 95 oktana bensíni og dísilolíu frá því skattlagningu dísilolíu var breytt á miðju ári 2005.
Heimsmarkaðsverð á bensíni og díselolíu
Á myndinni má sjá að verðið á bensíni hefur sveiflast meira en á dísilolíu á undanförnum árum. Verð á bensíni hefur mjög sjaldan verið lægra en á dísilolíu. Að meðaltali hefur dísilolía verið 3,3% lægri í verði á hvert tonn en bensín þrátt fyrir að hún hafi 3,6% meira orkuinnihald.
Frá ársbyrjun 2007 hefur verð hennar hækkað meira en bensín. Upp á síðkastið hefur verð á hverju tonni af dísilolíu verið um fjórðungi hærra en á bensíni. Innkaupsverð á eldsneyti til landsins er háð gengi krónunnar gagnvart dollar. Á því tímabili sem þarna er sýnt sveiflaðist gengi krónunnar gagnvart dollar mjög mikið. Krónan stóð hæst í október og nóvember í fyrra, innan við 61 kr/dollar en lægst í júní 2006 tæpar 75 krónur. Þótt gengi krónunnar hafi veikst mjög að undanförnu hefur því meðalgildi mánaðar ekki verið náð. Endanlegt söluverð eldsneytis jafnar mjög út sveiflur á innkaupsverði og gengi.
Frá því í fyrrahaust hefur innkaupsverð á hvern lítra af bensíni og dísilolíu hækkað mjög. Í október 2007 var reiknað innkaupsverð á bensíni 33,63 kr/l og 38,22 kr/l á dísilolíu. Fram til apríl í ár hefur innkaupsverðið
á bensíni hækkað um næstum 20 kr á lítra, sem er 59%. Innkaupsverð á dísilolíu hefur hækkað um nærri 30 kr á lítra, um 76%.
Á sama tíma hefur útsöluverð á bensíni hækkað um 17% en á dísilolíu um 25%. Hlutur olíufélaganna í endanlegu verði hefur því dregist saman að undanförnu. Framlegð olíufélaganna (endanlegt söluverð að frádregnum sköttum og vörugjaldi ásamt reiknuðu innkaupsverði, sem hlutfall af innkaupsverði) af dísilolíu var yfir 60% í október í fyrra en er nú 29%. Framlegð í bensínsölu var 78% en er nú 46%. Olíufélögin virðast þannig ekki hafa fært alla hækkun innkaupsverðsins yfir á neytendur þótt mjög hafi verið kvartað yfir verðinu. Mismunurinn er meiri á dísilolíu en bensíni að þessu leyti.