Ísland fullgildir samning um kjarnorkuöryggi
Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni (IAEA) hafa verið afhent fullgildingarskjöl vegna alþjóðlegs samnings um kjarnorkuöryggi og tekur samningurinn gildi hinn 2. september n.k. hvað Ísland varðar. Hefur Ísland nú fullgilt alla samninga stofnunarinnar á þessu sviði.
Markmið samningsins er að koma á og viðhalda háu öryggisstigi í kjarnorkuverum um allan heim með viðeigandi aðgerðum einstakra landa og alþjóðlegu samstarfi. Einnig að koma í veg fyrir kjarnorkuslys og afleiðingar þeirra.
Þrátt fyrir að engin kjarnorkuver séu á Íslandi þá er mikilvægt að tryggt sé að kjarnorkuver í nágrannalöndum uppfylli ströngustu skilmála og staðla. Aðild að samningnum gefur Íslandi tækifæri til að fylgjast með öryggisástandi kjarnorkuvera þar og taka þátt í umræðum um öryggismál þeirra.
Með aðild sinni að samningnum um kjarnorkuöryggi hefur Ísland fullgilt alla fimm samninga IAEA á þessu sviði. Hinir samningarnir eru; a) samningurinn um að tilkynna án tafar um kjarnorkuslys frá 1986, b) samningurinn um vörslu kjarnakleyfra efna frá 1980, c) samningurinn um gagnkvæma aðstoð við kjarnorku- og geislaslys frá 1986, og d) samningurinn um örugga meðferð notaðs eldsneytis og geislavirks úrgangs frá 1997.
Alþjóða kjarnorkumálastofnunin (IAEA) er vettvangur alþjóðasamstarfs á sviði kjarnorkumála og styður hún við örugga nýtingu kjarnorkutækni. Fulltrúi Íslands fer með formennsku ráðgjafarnefndar IAEA um öryggisstaðla við geislavarnir til 2010. Undanfarin ár hefur Ísland greitt frjálst framlag í tæknisjóð IAEA. IAEA kallar reglulega eftir íslenskum sérfræðingum til þátttöku og fyrirlestrarhalds á fundum sínum.