Nr. 21/2008 - Framtíð Alþjóðahvalveiðiráðsins tekin til endurskoðunar
Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Nr. 21/2008
Helsta ákvörðun sextugasta ársfundar Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem lauk í dag í Santiago í Chile, var að stofna vinnuhóp sem ætlað er að vinna að lausn þeirra grundvallarágreiningsmála sem hamlað hafa starfi ráðsins undanfarin ár. Samkvæmt ákvörðun ráðsins er tilgangurinn með starfi vinnuhópsins sá að gera Alþjóðahvalveiðiráðinu kleift að “uppfylla hlutverk sitt varðandi vernd hvalastofna og stjórn hvalveiða”.
Formaður Alþjóðahvalveiðiráðsins, dr. Bill Hogarth frá Bandaríkjunum, átti frumkvæði að því fyrir ári síðan að hefja ferli varðandi “framtíð Alþjóðahvalveiðiráðsins”. Fram að þessum fundi hefur í þessu ferli nánast eingöngu verið fjallað um samskipti ríkja og praktísk mál varðandi fundi ráðsins. Í því sambandi voru nú m.a. mótaðar breytingartillögur á fundarsköpum Alþjóðahvalveiðiráðsins.
Ákvörðunin nú felur í sér að fram að næsta ársfundi verði öll áhersla lögð á að finna lausnir á hinum efnislegu þáttum ágreiningsins innan ráðsins. Djúpstæður ágreiningur hefur verið um grundvallaratriði, svo sem um hvort sjálfbærar hvalveiðar séu réttlætanlegar, og ljóst er að hópsins bíður erfitt verkefni. Ísland studdi tillögur formanns ráðsins um vinnufyrirkomulag og efnistök og mun taka þátt í starfi vinnuhópsins.
Til að vinna að framgangi þessa ferlis stilltu sendinefndir almennt málflutningi sínum í hóf, samanborið við undanfarin ár, framan af fundinum og lögðu ekki fram tillögur sem ljóst væri að ekki væri samstaða um innan ráðsins. Þannig voru að þessu sinni t.d. ekki lagðar fram tillögur um strandveiðar við Japan og ekki var farið fram á atkvæðagreiðslu varðandi tillögu um griðasvæði fyrir hvali í Suður-Atlantshafi.
Það sem helst dró úr þessu bætta andrúmslofti innan Alþjóðahvalveiðiráðsins var að hópur ríkja lagðist gegn tillögu um veiðiheimildir á hnúfubak fyrir Grænland. Hefð er fyrir því að ráðið samþykki samhljóða tillögur um veiðiheimildir fyrir frumbyggja og er þessi stefnubreyting því eftirtektarverð. Tillagan var felld á fundinum, en Grænland heldur þó þeim veiðiheimildum sem Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkti fyrir ári síðan. Stefnubreyting þeirra ríkja sem nú voru andstæð grænlensku tillögunni orsakaði nokkuð harðar deilur, sem jafnvel geta haft neikvæð áhrif á starf vinnuhópsins um framtíð Alþjóðahvalveiðiráðsins.
Ýmis önnur mál voru til umfjöllunar á ársfundinum. Í því sambandi má nefna ítrekun á fordæmingu ráðsins á aðgerðum mótmælenda sem trufluðu löglegar hvalveiðar Japana með hættulegu atferli. Aðildarríki ráðsins voru hvött til aðgerða í þessu sambandi. Í umræðum um þetta mál lagði Ísland áherslu á aðgerðir ríkja sem koma beint að málinu sem fánaríki, hafnríki eða ríki þar sem samtök sem stundi þessa iðju eru með skráða starfsemi.
Frekari upplýsingar veitir Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, sem var formaður íslensku sendinefndarinnar á fundinum. Hægt er að ná í Stefán í síma 862-3637 (blaðamenn eru þó beðnir að hafa fjögurra klukkustunda tímamun milli Íslands og Chile í huga þegar þeir hringja).
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu
27. júní 2008