Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2008 Matvælaráðuneytið

Nr. 25/2008 - Niðurstöður og tillögur kræklinganefndar

Kræklingur II
Kræklingur II

Fréttatilkynningfrá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu

Nr. 25/2008

Niðurstöður og tillögur kræklinganefndar

Þann 7. desember 2007 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd til að kanna stöðu og möguleika kræklingaræktar á Íslandi. Í skipunarbréfi til nefndarinnar kom eftirfarandi fram:

Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til að kanna stöðu og möguleika til kræklingaræktar á Íslandi með tilliti til bæði líffræðilegra og rekstrarlegra forsendna greinarinnar og umhverfisþátta. Nefndinni er ætlað að skila greinargerð til ráðherra og koma jafnframt með tillögur að þeim aðgerðum sem hægt væri að grípa til hjá hinu opinbera til að treysta almennar vaxtarforsendur greinarinnar“.

Nefndina skipuðu: Haukur Oddsson verkfræðingur, framkvæmdastjóri Borgunar hf. (formaður), Ásta Ásmundsdóttir verkefnisstjóri hjá Matís ohf., Guðrún Þórarinsdóttir sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni, Jón Páll Baldvinsson frá Skelrækt – samtökum kræklingaræktenda og Kristinn Hugason deildarstjóri, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Nefndin setti fram eftirfarandi tillögur til ráðherra að leiðum til að styðja við uppbyggingu kræklingaræktar á Íslandi:

Þjónusta opinberra stofnana

Tillaga 1: Samráðshópur

  • Stofnaður verði samráðshópur og í honum sitji fulltrúar frá Matvælastofnun, Matís, Hafrannsóknastofnuninni og Skelrækt. Formaður hópsins verði frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
  • Hlutverk samráðshópsins verði að samþætta starf ríkisstofnanna og koma með tillögur til ráðherra um ræktunarsvæði þar sem fram færi heilnæmiskönnun eða annarskonar umhverfisrannsóknir sem verði fjármagnaðar úr ríkissjóði sbr. tillögur 2 og 3.


Tillaga 2: Ræktunarsvæði

  • Samhliða heilnæmiskönnun ræktunarsvæða verði lagt mat á tíðni eitraðra svifþörunga á svæðunum.
  • Nefnd sem m.a. fjallar um skipulag strandsvæða á Íslandi ljúki störfum.


Tillaga 3: Heilnæmi framleiðslunnar

  • Lagt er til að mælingar á þörungaeitri og kadmíum í uppskeru verði fjármagnaðar úr ríkissjóði fyrst um sinn.
  • Aflað verði frekari upplýsinga um uppruna og náttúrulegan breytileika í styrk kadmíums í kræklingi hér við land.

Rannsókna- og þróunarstarf

Tillaga 4: Ræktunartækni og flutningur

  • Aðlaga þarf  ræktunartækni að hverju svæði fyrir sig.   Mikilvægt er að hægt verði að sækja um styrki í opinbera sjóði í þessu skyni.
  • Lagt er til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið veiti fjármagni til að könnuð verði hagkvæmni mismunandi flutningsleiða fyrir ferskan krækling á Evrópumarkað.

 

Skýrslu nefndarinnar í heild sinni (712 Kb)

 

Kræklingaskýrsla

Á myndinni eru: Haukur Oddsson formaður nefndarinnar, Víðir Björnsson hjá Norðurskel í Hrisey og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,

8. júlí 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta