Námsgagnasjóður 2008
Ágætu skólastjórar!
Eins og kunnugt er var stofnaður námsgagnasjóður á grundvelli laga um námsgögn nr. 71/2007 og hefur sjóðurinn það hlutverk að leggja grunnskólum til fé til námsgagnakaupa. Úthlutun úr sjóðnum fór fram í fyrsta skipti í nóvember 2007 og í reglugerð um sjóðinn nr. 1111/2007 er kveðið á um að grunnskólar skuli láta sjóðsstjórn í té skilagrein á rafrænu formi um ráðstöfun úthlutunar eigi síðar en 30. apríl ár hvert. Nú er komið að annarri úthlutun úr sjóðnum og greiðsla fyrir hvern skóla er innt af hendi til rekstraraðila hans og tekur hún mið af fjölda skráðra nemenda í hverjum grunnskóla á sl. skólaári, skv. upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Ráðstöfun á þessu fé er einskorðuð við kaup á námsgögnum frá lögaðilum (þeir sem stofnað hafa kennitölu um rekstur) og skulu námsgögnin samrýmast markmiðum aðalnámskrár. Óheimilt er að verja fjármunum úr námsgagnasjóði til búnaðar- og tækjakaupa.
Skilagrein fyrir núverandi tímabil miðast við 30. apríl 2008 til 30. apríl 2009. Opnað verður fyrir rafrænan aðgang að henni 15. ágúst 2008. Notendanafn og lykilorð sem ykkur var sent í bréfi, dags. 15. apríl 2008, gildir áfram. Vinsamlegast athugið að ef afgangur verður af úthlutunarfjárhæð eftir útfyllingu skilagreinar þá yfirfærist hann á næstu úthlutun. Ef sjóðsstjórn samþykkir ekki færslu fær viðkomandi tilkynningu þar að lútandi á uppgefið netfang. Hægt verður að sjá eldri skilagreinar í grunninum.
Skólastjórnendur hafa almennt fagnað auknu svigrúmi til námsgagnakaupa og talið það verulega til hagsbóta fyrir skólastarf. Þá er það ánægjuefni að skólastjórnendur hafa almennt náð að fylgja fyrirmælum reglugerðar án þess að vafamál hafi komið upp um túlkun hennar. Stjórn sjóðsins þakkar þessi jákvæðu viðbrögð þrátt fyrir skamman afgreiðslutíma fyrri úthlutunar og ýmsan vanda sem upp kom og flokka má undir byrjunarörðugleika. Ef þið hafið spurningar vinsamlegast hafið þá samband við starfsmann sjóðsins, Erlu Ósk Guðjónsdóttur, í síma 545 9567 eða á netfangið [email protected]