Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2008 Innviðaráðuneytið

Tvöfalda þarf Hvalfjarðargöng á næstu 5 til 10 árum

Tíu ár eru í dag liðin frá því að Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun. Við þau tímamót afhentu forráðamenn Spalar samgönguráðherra skýrslu um rannsóknir og tæknilega undirbúningsvinnu vegna nýrra ganga sem stjórnin telur að hefja þurfi framkvæmdir við innan fjögurra ára.
Frá afmælisathöfn Spalar í dag.
Frá afmælisathöfn Spalar í dag.


Kristján L. Möller samgönguráðherra þakkaði forráðamönnum Spalar fyrir forgöngu þeirra og þrautseigju við að vinna verkinu brautargengi svo og fyrir skýrsluna um undirbúning nýrra ganga. Hann sagði eðlilegt að huga að nýjum göngum til að mæta aukinni umferð í framtíðinni, um það væri ekki spurning. Verkið yrði umfangsmikið og undirbúningur tæki langan tíma. Hann sagði göngin ekki komin í samgönguáætlun ennþá en sagðist telja ljóst að ráðast yrði í tvöföldun á næstu 5 til 10 árum.

Samgönguráðherra sagði í ávarpi sínu í afmælisathöfn á Akranesi í dag að Hvalfjarðargöng hefðu fyrir löngu sannað ágæti sitt. Þau styttu þúsundum manna leið á degi hverjum, hefðu leitt til nýrrar þróunar í búsetu og atvinnusókn og þau væru dæmi um hvernig samgöngumannvirki gætu skipt sköpum um slíka byggðaþróun.

Samkvæmt skýrslu Spalar er áætlaður kostnaður við ný Hvalfjarðargöng um 7,5 milljarðar króna að virðisaukaskatti meðtöldum á verðlagi um mánaðarmótin maí/júní 2008. Þá er reiknað með öllum verkkostnaði og tilheyrandi búnaði ganganna ásamt vegskálum og vegtengingum beggja vegna auk kostnaðar við hönnun, umsjón og eftirlit. Fjármagnskostnaður er ekki meðtalinn og heldur ekki kostnaður vegna landakaupa.

Ætla má að um þrjú og hálft ár líði frá því vinna hefst við hönnun nýrra ganga til útboðs þar til göngin verða tekin í gagnið. Áður en næsta skref verður stigið nú þarf annars vegar að ljúka landakaupum og hins vegar skipulagsferli beggja vegna Hvalfjarðar. Landakaupin eru á forræði Vegagerðarinnar. Þá er unnið að nýju aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar og breytingum á aðalskipulagi á Kjalarnesi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta