Sameiginleg niðurstaða fundar dóms- og kirkjumálaráðherra og borgarstjóra, 18. júlí 2008
Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og Ólafur F. Magnússon borgarstjóri eru sammála um mikilvægi öflugrar löggæslu. Ávinningur sé af skipulegu samstarfi lögreglu og borgaryfirvalda. Fagnaði ráðherrann því framtaki Reykjavíkurborgar að ráða sérstaka menn til að auka öryggisgæslu í miðborginni. Samstarf af þessu tagi ætti að þróa áfram í samvinnu lögreglu og sveitarfélaga. Í því sambandi var rætt um hverfagæslu til eftirlits með tilteknum svæðum, grunsamlegum eða óeðlilegum mannaferðum og hópasöfnun unglinga og miðlun upplýsinga um slíkt til lögreglu. Hverfagæsla kæmi hins vegar aldrei í stað öflugrar löggæslu í borginni. Var ákveðið, að hugað skyldi að gerð samkomulags lögreglu og Reykjavíkur um skipulegt samstarf um hverfagæslu. Það er sameiginlegt markmið ráðherra og borgarstjóra að tryggja sem best öryggi borgaranna með öflugri löggæslu.