Helstu niðurstöður skattaálagningar árið 2008
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 11/2008
Álagning opinberra gjalda á einstaklinga og þá sem stunda atvinnurekstur í eigin nafni fyrir árið 2008 liggur nú fyrir.
Um er að ræða endanlega álagningu á tekjuskatti, fjármagnstekjuskatti og útsvari á tekjur ársins 2007, en meginhluti álagningarinnar hefur þegar verið innheimtur í formi staðgreiðslu eða fyrirframgreiðslu á árinu 2007. Einnig er hér um að ræða álagningu á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra, auk þess sem ákvarðaðar eru greiðslur barnabóta og vaxtabóta. Frekara talnaefni um álagningu skatta á einstaklinga og ákvörðun barna- og vaxtabóta fyrir árið 2008 verður fljótlega að finna á vefsíðu ríkisskattstjóra (www.rsk.is) undir Staðtölur skatta.
Helstu niðurstöður álagningarinnar nú eru eftirfarandi:
- Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2008 er 264.766. Fjölgun milli ára var 4,3%, aðeins litlu minni en í fyrra. Eins og þá er skýringin mikill aðflutningur. Rúmlega 33 þúsund framteljendur, 12,5% af heild, er með erlent ríkisfang.
- Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 213,6 milljörðum króna og hækkar um 15,1% frá fyrra ári. Álagðir tekjuskattar til ríkissjóðs skiptast í tekjuskatt annars vegar og fjármagnstekjuskatt hins vegar en útsvarið er tekjustofn sveitarfélaga.
- Almennan tekjuskatt, samtals 86,4 milljarða króna, greiða 178.270 einstaklingar, eða 67% framteljenda og hefur það hlutfall lækkað nokkuð frá fyrra ári. Skattgreiðsla á hvern gjaldanda hefur hækkað um 3,8 % milli ára meðan tekjuskattstofninn hækkaði um 10,5% á hvern framteljanda að meðaltali. Þetta stafar af lækkun skatthlutfallsins úr 23,75% í 22,75% í upphafi árs 2007, auk þess sem persónuafsláttur hækkaði um 10,75%.
- Útsvar til sveitarfélaga nemur alls 101,9 milljörðum króna og hækkar um 16,8% frá fyrra ári. Gjaldendur útsvars eru 256.777 og fjölgar um 4,4% milli ára. Álagt útsvar á hvern gjaldanda hækkar samkvæmt því um 11,8% milli ára en meðalútsvarshlutfall breyttist ekki. Hækkunin hefur aldrei áður orðið jafn mikil að óbreyttri útsvarsprósentu.
- Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 25,3 milljörðum króna og hækkar um tæplega 55% milli ára. Greiðendur fjármagnstekjuskatts eru tæplega 99 þúsund og fjölgar um rúmlega 6% milli ára. Söluhagnaður skýrir 58% af skattstofni fjármagnstekjuskatts en arður og vaxtatekjur tæpan fimmtung hvor liður. Hlutur fjármagnstekjuskatts af tekjusköttum einstaklinga til ríkissjóðs jókst verulega og nam 22,6% en hlutfallið var 16,6% í fyrra.
- Framtaldar eignir heimilanna námu 3.380 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um 20% frá fyrra ári. Fasteignir heimilanna töldust 2.377 milljarðar að verðmæti eða um 70% af eignum og verðmæti þeirra hafði aukist um 15,8% milli ára en eigendum fasteigna fjölgaði um 2,4%. Framtaldar skuldir heimilanna námu alls 1.348 milljörðum króna í árslok 2007 og höfðu þær vaxið um liðlega 21% frá árinu 2006. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa jukust um 19,2%, og námu 840,5 milljörðum króna. Skuldir vegna íbúðarkaupa námu 35,4% af verðmæti þeirra og hafði það hlutfall hækkað um eina prósentu frá fyrra ári.
- Á þessu ári verða greiddir út rúmir 8,4 milljarðar króna í barnabætur samanborið við 7,4 milljarða króna í fyrra sem er 12,7% aukning. Barnabætur voru hækkaðar um 3,2% frá fyrra ári og tekjuskerðingarmörk hækkuð um 29% frá fyrra ári. Þeim sem bótanna njóta fjölgar um 4,5% frá síðasta ári. Skerðingarhlutfall vegna tekna umfram skerðingarmörk hjá foreldrum með 1 barn voru lækkuð úr 3% í 2% í úthlutun bótanna í ár. Meðalbætur á hverja fjölskyldu hækkar um 7,9%.
- Ákvarðaðar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af íbúðarlánum, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2007, nema 6,6 milljörðum króna í ár. Vaxtabætur fá rúmlega 58 þúsund aðilar og hefur þeim fjölgað um 17,3% frá fyrra ári. Meðalvaxtabætur eru nú 114 þúsund að meðaltali á hvern vaxtabótaþega og hafa hækkað um 7,3% milli ára en þeim er skipt á milli hjóna og sambýlisfólks. Vaxtabætur hækkuðu um 6% frá fyrra ári og viðmiðunarmörk þar sem bætur byrja að skerðast vegna nettóeignar hækkuðu um 47%.
- Nú koma til framkvæmda ákvæði laga um uppbót á eftirlaun í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem ákveðið er að allir sem uppfylla tiltekin skilyrði skuli fá úr ríkissjóði það sem vantar upp á 25.000 kr eftirlaun úr lífeyrissjóði á mánuði. Samtals nema uppbætur 591 milljón króna til um 3.500 einstaklinga.
- Hinn 1. ágúst n.k. koma til útborgunar úr ríkissjóði til framteljenda 11,3 milljarðar króna eftir skuldajöfnun á móti ofgreiddum sköttum. Vaxtabætur eru stærsti hluti útborgunarinnar en þær nema 5,5 milljörðum, um 83% af öllum vaxtabótum. Fjórðungur barnabóta verða útborgaðar og nemur upphæð þeirra 2,1 milljörðum. Afgangurinn, 3,7 milljarðar króna, eru ofgreidd staðgreiðsla eða fyrirframgreiddir skattar af tekjum síðasta árs. Barnabætur eru greiddar út fjórum sinnum á ári og kemur síðasti hluti þeirra, 2,5 milljarðar króna, til útborgunar 1. nóvember n.k.
Reykjavík 30. júlí 2008