Nr. 27/2008 - Opinber heimsókn Finn Karlsen, sjávarútvegs-, veiðimála- og landbúnaðarráðherra Grænlands
Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu
Nr. 27/2008
Opinber heimsókn Finn Karlsen, sjávarútvegs-, veiðimála-
og landbúnaðarráðherra Grænlands
Hér á landi er staddur sjávarútvegs-, veiðimála- og landbúnaðarráðherra Grænlands, Finn Karlsen í boði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Einars K. Guðfinnsonar. Heimsóknin hófst formlega í gær, þriðjudaginn 12 ágúst. Ráðherrarnir hittust á Ísafirði og kynntu sér svæðið og starfsemi nokkurra fyrirtækja vestra. Dagskránni fyrir vestan lauk með fundi með bæjarstjórum Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur þar sem rædd voru sameiginleg hagsmunamál og kom fram vilji allra aðila að auka samskipti.
Í dag héldu ráðherrarnir fund í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þar sem ýmis sameiginleg hagsmunamál landanna voru rædd. M.a. komu þar til umræðu málefni er lúta að veiðum á grálúðu og hvernig megi stýra þeim veiðum frekar og komast að samkomulagi um veiðarnar, en báðir aðilar hafa áhyggjur af minkandi grálúðustofni. Samþykktu ráðherrarnir að séstakri nefnd embættismanna beggja þjóða verði komið á og mun hún taka til starfa innan tíðar. Þá munu fulltrúar ráðuneytanna einnig fjalla um veiðar á karfa. Ráðherrarnir ræddu nauðsyn þess að auka rannsóknir á þorskstofnum landanna og voru sammála um að auka samvinnu þar að lútandi. Eftir hádegi var farið í fyrirtæki og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu sem tengjast sjávarútvegi.
Á morgun fimmtudag fer kynnir ráðherrann starfsemi fleiri fyrirtækja og stofnana, þar á meðal Bændasamtaka Íslands. Að síðustu fer ráðherrann upp á Hvanneyri og skoðar Landbúnaðarháskóla Íslands.
Opinberri heimsókn ráðherrans lýkur annað kvöld. Hann heldur af landi brott ásamt aðstoðarmanni sínum, á laugardagsmorgun.
Á myndinn eru frá vinstri Finn Karlssen, ráðherra sjávarútvegs, veiða- og landbúnaðarmála Grænlands, Hans Möller aðstoðarmaður hans, Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Níels Árni Lund, skrifstofustjóri og Sigurgeir Þorgeirsson ráðuneytisstjóri, staddir á hlaðinu í Vigur.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,
13. ágúst 2008