Nýting heimildar til sérstakrar lántöku ríkissjóðs á árinu 2008
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 14. ágúst 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Sem kunnugt er samþykkti Alþingi nú í vor lög sem heimila fjármálaráðherra að taka á þessu ári lán fyrir allt að 500 milljörðum króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt umfram þær lántökur sem fjárlög ársins gerðu ráð fyrir.
Í athugasemdum við lagafrumvarpið kom fram að lántökuheimildin miðaði að tvennu. Annars vegar væri gert ráð fyrir að nýta mætti heimildina til töku erlends láns sem endurlánað verði Seðlabanka Íslands í því skyni að efla gjaldeyrisforða bankans. Hins vegar væri gert ráð fyrir að nýta mætti heimildina til aukinnar útgáfu ríkisverðbréfa á innlendum markaði, yrði þess talin þörf í því skyni að styrkja innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað.
Þess misskilnings gætir í opinberri umræðu að lántökuheimildarinnar hafi verið aflað til þess að tafarlaust yrði hægt að ráðast í stóra erlenda lántöku að jafnvirði 500 milljarða króna í því skyni að styrkja gjaldeyrisforðann. Ástæða er því til að minna á að í athugasemdum við lagafrumvarpið sagði eftirfarandi :
„Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvenær á árinu, að hvaða marki, í hvaða áföngum eða í hvaða hlutföllum erlendrar og innlendrar lántöku heimildin verður nýtt, enda mun það ráðast af aðstæðum. “ Og í umsögn efnahags- og skattanefndar um frumvarpið við þinglega meðferð þess segir : „ Ekki liggur fyrir hvenær eða að hvaða marki heimildin verður nýtt innanlands eða erlendis, en í fyrstu verður hún tæpast nýtt nema að hluta. “
Í framhaldi af samþykkt lántökuheimildarlaganna hefur verið unnið að málinu í samræmi við það sem að framan er rakið. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um auknar innlendar lántökur ríkissjóðs í formi ríkisbréfaútgáfu og gjaldeyrisforðinn hefur verið aukinn nokkuð með útgáfu ríkisvíxla í evrum og bandaríkjadölum.
Eins og fram kom í kostnaðarumsögn með frumvarpinu mun árleg afkoma ríkissjóðs versna um 500 milljónir króna fyrir hvert 0,1 % (10 punkta) sem vaxtakostnaður ríkissjóðs af lántökunni verður hærri en vaxtatekjur, miðað við að lántökuheimildin yrði nýtt að fullu. Það skiptir því ekki litlu að rétt sé á málum haldið.