Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2008 Utanríkisráðuneytið

Opið hús í utanríkisráðuneyti á menningarnótt

ISG opið hús
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra mun opna dyr ráðuneytisins laugardaginn 23. ágúst, kl. 14:00

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að taka þátt í Menningarnótt Reykjavíkurborgar til að kynna starf utanríkisþjónustunnar og starfsumhverfi. Verður það með opið hús laugardaginn 23. ágúst, á milli kl.14:00 – 18:00.

Almenningi er boðið að ganga um húsið þar sem margvíslegt fræðsluefni verður á boðstólum, ráðherra mun, sem og starfsmenn ráðuneytisins, taka á móti almenningi á skrifstofu sinni og kynna starfsemina. Þá verður boðið upp á fyrirlestra um helstu verkefni utanríkisþjónustunnar, svo sem þróunarsamvinnu, mannúðarmál, utanríkisviðskipti og varnarmál.

Sérstök áhersla verður lögð á að kynna aðstoð utanríkisþjónustunnar við Íslendinga erlendis, s.k. borgaraþjónustu. Einnig hefur Íslenska friðargæslan sett upp sérstaka sýningu í tilefni opna hússins.

Menningin verður að sjálfsögðu í hávegum höfð á Menningarnótt en utanríkisþjónustan sinnir mikilvægu hlutverki á því sviði erlendis. Verk listamanna sem tekið hafa þátt í Feneyja-tvíæringnum munu prýða veggi hússins og sýnt verður brot úr nýrri ljósmyndasýningu Páls Stefánssonar með myndum frá Afríku.

Síðast en ekki síst verður efnt til barnadagskrár þar sem börnunum verður boðið upp á að leika sér í hoppkastala og að taka þátt í teiknisamkeppni, auk þess sem þau fá að velja sér andlitsmálningu úr fánum heimsins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta