Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tilhögun lokaverkefnis og tengsl þess við sveinspróf í bygginga- og mannvirkjagreinum

Í júní sl. voru kynntar tillögur að breytingum á námskrá í bygginga- og mannvirkjagreinum. Athugasemdir sem bárust við námskrárdrögin eru í athugun og mun gildistaka nýrrar námskrár því dragast eitthvað. Í gildandi námskrá hefur einkum eitt atriði orkað tvímælis og orðið tilefni ólíkra túlkana en það er umfjöllun námskrár um lokaverkefni og tengsl þess við sveinspróf í viðkomandi iðn. Með bréfi þessu vill ráðuneytið leitast við að skýra þau vafaatriði sem uppi kunna að vera um þetta mál.

Í námskránni segir eftirfarandi í kafla um skipulag námsins, bls. 6:

Náminu lýkur í skóla, þ.e. á seinustu skólaönn sérnámsins og á þeirri önn fer m.a. fram sveinspróf í umsjá sveinsprófsnefndar. Að sérnámi loknu útskrifast nemandi með prófskírteini sem vottar að hann hafi lokið einsökum áföngum með fullnægjandi árangri þ.m.t. sveinsprófsverkefni. ... Að fengnu prófskírteini sem vottar útskrift af viðkomandi námsbraut og vottorði um að vinnustaðanámi sé lokið getur nemandi sótt um útgáfu sveinsbréfs til iðnaðarráðuneytis.

Í áfangalýsingu LHÚ 104, lokaverkefni í húsasmíði, bls. 61-62, segir m.a. ennfremur: ... Um er að ræða verklegan hluta sveinsprófs í húsasmíði. ...Verkefni áfangans er liður í lokamati til sveinsprófs í húsasmíði. (Lýsingar á lokaverkefnum í öðrum byggingagreinum eru samhljóða).

Af framangreindum tilvitnunum er ljóst að námskráin gerir ráð fyrir að sveinsprófin fari fram á lokaönn skólanámsins í umsjá sveinsprófsnefnda, að lokaverkefni í skóla sé liður í sveinsprófi og að útskrift af námsbraut taki sameiginlega til burtfararprófs úr skóla og sveinsprófs. Þetta skipulag krefst meiri og nánari samvinnu en áður hefur þekkst milli þeirra þriggja aðila sem koma að lokamati og útskrift sveina í löggiltum iðngreinum, þ.e. sveinsprófsnefnda, skóla og umsjónaraðila sveinsprófa. Af fenginni reynslu telur ráðuneytið að breyting af þessum toga gerist ekki í einni svipan en sé þróunarverkefni sem hljóti að taka tíma. Að höfðu samráði við starfsgreinaráð bygginga- og mannvirkjagreina heimilar ráðuneytið hér með frávik frá ákvæðum aðalnámskrár um beint og ófrávíkjanlegt samband á milli lokaverkefnis í skóla og sveinsprófs annars vegar og hins vegar milli burtfararprófs skóla og sveinsprófs.

Rétt er að undirstrika að hlutverk sveinsprófsnefndar er að sjá um framkvæmd sveinsprófa í viðkomandi iðngrein fyrir landið allt, þar með talið mat á úrlausnum nemenda. Til að lokaverkefni í skóla samkvæmt gildandi námskrá geti talist fullgildur hluti af sveinsprófi þarf sveinprófsnefnd að samþykkja að svo skuli vera og sveinsprófnefnd og skóli þurfa að koma sér saman um áherslur, tilhögun og námsmat í áfanganum. Ráðuneytið hvetur aðila eindregið til samstarfs af þessum toga og væntir þess að unnið verði að því að nemendur fái eina lokaútskrift af námsbrautinni, þ.e. sameiginlega útskrift með burtfararpróf úr skóla og sveinspróf. Ef aðstæður koma í veg fyrir tilhögun sem hér um ræðir er heimilt að lokaverkefni í skóla verði sjálfstæður áfangi með það að meginmarkmiði að búa nemendur undir sveinspróf. Í þeim tilvikum er þó mælt með því að skóli hafi samráð við sveinsprófsnefnd um áherslur, tilhögun og námsmat í áfanganum eftir því sem tök eru á. Jafnframt er skóla heimilt að útskrifa nemanda með burtfararpróf þó hann hafi ekki lokið sveinsprófi ef aðstæður útheimta slíka lausn.

Í framhaldi af setningu nýrra laga um framhaldsskóla (nr. 92 12. júní 2008)verða settar nýjar reglugerðir, m.a. um sveinspróf og vinnustaðanám. Það er ósk ráðuneytisins að með þeim reglugerðum takist að skapa ramma fyrir aukið samstarf skóla og atvinnulífs um bætta iðnmenntun og heildstætt námsmat í öllum iðn- og starfsgreinum. Ráðuneytið væntir góðs samstarfs við alla hlutaðeigandi aðila í þeirri vinnu sem fram undan er.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta