Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2008 Forsætisráðuneytið

Opinber heimsókn forsætisráðherra til Albaníu

Opinber heimsókn Geirs H. Haarde forsætisráðherra til Albaníu hófst í morgun með fundi hans og Sali Berisha, forsætisráðherra. Þeir ræddu tvíhliða samskipti ríkjanna, svæðisbundin mál og alþjóðamál, m.a. leiðir til að auka viðskipti og fjárfestingar, ástand og horfur á vestanverðum Balkanskaga og afleiðingar innrásar Rússlands í Georgíu. Af hálfu albanskra stjórnvalda var þakkaður stuðningur Íslands við aðild Albaníu að NATO og ítrekaður stuðningur Albaníu við framboð Íslands til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherra átti einnig fund með Bamir Topi, forseta Albaníu, og Jozefinu Topalli, forseta albanska þingsins. Bæði lýstu þau miklum áhuga á að nýta sér reynslu Íslendinga til að efla lýðræðislega stjórnarhætti og til efnahagslegra umbóta. Í för með forsætisráðherra eru fulltrúar Landsvirkjunar Power og Actavis og heimsótti hann skrifstofu síðarnefnda fyrirtækisins í Tirana. Á morgun leggur forsætisráðherra blómsveig að minnisvarða um Albana sem hafa látið lífið fyrir ættjörðina og snæðir hádegisverð með Lulzim Basha, utanríkisráðherra Albaníu.

Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu, og Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kanna heiðursvörð fyrir utan skrifstofur Berisha áður en fundur þeirra Geirs hófst.

Reykjavík 26. ágúst 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta