Barnaverndarlög endurskoðuð
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, skipaði fyrir skömmu starfshóp til að endurskoða núgildandi barnaverndarlög nr. 80/2002. Hópurinn mun meta hvernig lögin hafa reynst frá því þau tóku gildi 1. júní 2002, hvaða lagabreytingar kunni að vera nauðsynlegar til að styrkja barnavernd í landinu og einnig hvaða breytingar megi gera á framkvæmd barnaverndarstarfs án lagabreytinga. Þá mun hópurinn skoða sérstaklega ákvæði laganna sem varða vistun barna utan eigin heimilis og framkvæmd þeirra, þ.e. ákvæði um ráðstöfun barns í fóstur eða vistun á heimili eða stofnun.
Í starfshópnum eru Hrefna Friðriksdóttir formaður, lögfræðingur á Barnaverndarstofu, Þorgerður Benediktsdóttir, lögfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, félagsráðgjafi og framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga og María Kristjánsdóttir, félagsmálastjóri Hveragerðisbæjar.