Fagnaðarfundur vegna heimkomu silfurverðlaunahafa og annarra íslenskra Ólympíufara 2008
Íslensku keppendurnir á Ólympíuleikunum 2008 koma heim til Íslands síðdegis í dag miðvikudaginn 27. ágúst eftir frækilega ferð til Peking, og af því tilefni er boðið til fagnaðarfundar íslensku þjóðarinnar á Arnarhóli kl. 18:30, eins og fram hefur komið.
Handboltalandsliðið mun aka í opnum vagni frá Skólavörðuholti kl. 18:00 í fylgd lúðrasveitar, fánabera ungs íþróttafólks og lögreglu, og verður ekið niður Skólavörðustíg og Bankastræti að Arnarhól. Þar fer fram fagnaðarfundur þjóðarinnar undir öruggri stjórn Valgeirs Guðjónssonar, þar sem íþróttafólkið verður hyllt fyrir glæsilega frammistöðu á Ólympíuleikunum.
Landsmenn eru hvattir til að taka þátt í dagskránni með því að fagna silfurverðlaunahöfunum á leiðinni og fjölmenna á Arnarhól. Að ósk lögreglu er almenningi bent á að nota almenningssamgöngur til að komast í miðborgina, leggja bílum sínum í bílastæðahús eða í hæfilegri fjarlægð frá samkomustaðnum til að greiða fyrir umferð.
Minnt er á að það er ókeypis í strætó í dag frá kl. 15:00.
Bæði verður sjónvarpað og útvarpað frá ferð liðsins frá Skólavörðuholti og fagnaðarfundinum á Arnarhól, og verður hægt að fylgjast með allri dagskrá heimkomunnar á risaskjá við Arnarhól frá kl. 16:00.