Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samningur við Reykjavíkurborg um þjónustu við geðfatlaða

Stefnt er að því að Reykjavíkurborg taki að sér framkvæmd allrar þjónustu við geðfatlaða í byrjun næsta árs samkvæmt yfirlýsingu sem Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri undirrituðu í Þjóðmenningarhúsinu dag. Jafnframt undirrituðu þær þjónustusamning um að borgin sinni allri stoðþjónustu við 44 geðfatlaða einstaklinga og sjái um útvegum húsnæðis fyrir þá. Borgin yfirtekur átaksverkefni Straumhvarfa um uppbyggingu húsnæðis og þjónustu í borginni. Framkvæmdum verður flýtt um eitt ár og lýkur á næsta ári í stað ársins 2010.

Undirritun samnings um þjónustu við geðfatlaðaÞjónustusamningurinn er fyrsta skrefið í þá átt að færa alla ábyrgð á þjónustu við geðfatlaða frá ríki til borgar, líkt og yfirlýsing ráðherra og borgarstjóra felur í sér. Með þessu eru mörkuð tímamót þar sem undirstrikaður er vilji og áform ríkisstjórnarinnar um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga með áherslu á að færa þjónustuna nær notendunum, færa sveitarfélögunum aukin verkefni og efla sveitarstjórnarstigið.

Þjónustusamningurinn gildir til ársloka 2010. Fyrir lok samningstímans verður gerð úttekt á framkvæmd samningsins og verða niðurstöðurnar lagðar til grundvallar þegar ákvörðun verður tekin um framhald verkefnisins. Markmið samningsins er að veita geðfötluðum stuðning til sjálfstæðis og lífsgæða sem stuðlar að því að þeir fái notið sín sem fullgildir þegnar samfélagsins á forsendum eigin getu. Í þessu felst að notendur þjónustu samkvæmt samningnum eigi kost á búsetu í einstaklingsíbúð sem best hentar hverjum og einum miðað við óskir, aðstæður og þörf fyrir þjónustu. Íbúðirnar verða skipulagðar sem þjónustueiningar í almennum íbúðahverfum með áherslu á greiðan aðgang að almenningssamgöngum og annarri þjónustu.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun á samningstímanum verja 850 milljónum króna í stofnkostnað og rekstur vegna þeirra verkefna sem borgin mun sinna samkvæmt þjónustusamningnum.

Samkvæmt viljayfirlýsingu félags- og tryggingamálaráðherra sem undirrituð var samhliða þjónustusamningnum hefst nú þegar undirbúningur að því að borgin yfirtaki stjórnun og framkvæmd allrar þjónustu við geðfatlaða sem nú er sinnt af Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík. Þegar allt verkefnið verður komið til framkvæmda 1. janúar 2009 hefur Velferðarsvið Reykjavíkur tekið að sér þjónustu við 105 geðfatlaða einstaklinga.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta