Samkomulag um alþjóðlegar leiðbeiningarreglur um stjórn djúpsjávarveiða á úthafinu
Samþykktar hafa verið alþjóðlegar leiðbeiningarreglur um stjórn djúpsjávarveiða á úthafinu en annarri lotu samningaviðræðna um reglurnar lauk í dag með einróma samkomulagi á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, í Róm. Ísland tók virkan þátt í mótun reglnanna og veitti FAO fjárhagslegan stuðning vegna verkefnisins. Fulltrúar utanríkisráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sátu fundinn.
Almenn samstaða var meðal þátttakenda í viðræðunum um að byggja starfið á fiskveiðiályktun allsherjarþings S.þ. frá 2006 og er niðurstaðan í fullu samræmi við þá ályktun. Leiðbeiningarreglurnar ná annars vegar til veiða á hægvaxta djúpsjávartegundum og hins vegar til áhrifa djúpsjávarveiða á úthafinu á viðkvæm vistkerfi hafsins, svo sem kaldsjávarkórallasvæði, hverastrýtur og vistkerfi við neðansjávartinda. Eitt af meginmarkmiðum reglnanna er að hindra skaðleg áhrif fiskveiða á viðkvæm vistkerfi hafsins.
Í leiðbeiningarreglunum er m.a. fjallað um
hvaða fiskveiðar teljast vera djúpsjávarveiðar í skilningi reglnanna,
til hvaða þátta ber að líta við mat á því hvort vistkerfi teljist viðkvæmt,
til hvaða þátta ber að líta þegar metið er hvort áhrif á viðkvæm vistkerfi séu verulega skaðleg,
hvernig leggja skal mat á framangreind atriði, og
hvernig bregðast skal við óvissu í þessu sambandi.
Framkvæmd leiðbeiningarreglnanna verður í höndum svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana á hafsvæðum þar sem slíkar stofnanir eru fyrir hendi, og fánaríkja viðkomandi veiðiskipa á svæðum þar sem slíkar stofnanir eru ekki til staðar. Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin, NEAFC, og Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunin, NAFO, hafa þegar hafið vinnu í þessu sambandi. Munu þessar stofnanir tryggja samræmi við leiðbeiningarreglur FAO á ársfundum sínum á komandi hausti. Íslensk skip stunda ekki djúpsjávarveiðar á úthafinu utan samningssvæða stofnananna.