Aðstæður á vinnumarkaði
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti stöðu mála á vinnumarkaði á fundi ríkisstjórnar í morgun, samkvæmt ítarlegri samantekt Vinnumálastofnunar.
Atvinnuhorfur
Áætlað er að atvinnuleysi verði um 1,2% í lok ágúst eftir hægfara aukningu að undanförnu. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi muni aukast jafnt og þétt í september, einkum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, vegna samdráttar hjá byggingaverktökum, sumum greinum verslunar, fjármálastarfsemi og öðrum þjónustugreinum. Staðan er hins vegar víðast betri á landsbyggðinni þegar litið er til næstu tveggja mánaða, einkum vegna aukinna fiskveiða og vinnslu við upphaf nýs kvótaárs.
Í nóvember og desember mun draga úr umsvifum hjá byggingaverktökum og í ferðaþjónustu og þá mun áhrifa hópuppsagna fara að gæta með auknum þunga, auk annarra uppsagna og áframhaldandi gjaldþrotum eins og vísbendingar hafa komið fram um hjá Ábyrgðarsjóði launa.
Vinnumálastofnun telur líklegt að meðalatvinnuleysi ársins 2009 verði um eða yfir 3%
Erlent starfsfólk
Árið 2007 var erlent starfsfólk yfir 17.000 manns eða rúm 9% af vinnuafli landsins. Vinnumálastofnun telur að erlendir starfsmenn séu nú um 15–16.000 og muni fækka niður í 13–14.000 í lok þessa árs. Atvinnulausum erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað töluvert síðustu mánuði. Þeir voru í júlí um 230 og fjölgaði í ágúst þótt endanlegar tölur liggi ekki fyrir.
Viðbrögð við auknu atvinnuleysi
Vinnumálastofnun sinnir ýmsum verkefnum til að takast á við aukið atvinnuleysi. Áhersla er lögð á greiningarvinnu ráðgjafa til að grípa sem fyrst inn í aðstæður hjá þeim sem hættast er við langtímaatvinnuleysi. Á höfuðborgarsvæðinu er að hefjast tilraunaverkefni með rekstur vinnuklúbbs þar sem fólk fær aðstoð við gerð ferilskráar, fyrstu skref við atvinnuleit og ýmsa ráðgjöf. Á Austurlandi er að hefjast samvinnuverkefni á sviði starfsendurhæfingar fyrir fólk sem þarf marghliða þjónustu vegna félagslegra eða heilsufarslegra aðstæðna og annað verkefni er á döfinni til að auðvelda fiskvinnslufólki sem missir atvinnu sína að finna sér nýjan starfsvettvang.
Vinnumálastofnun hefur ráðið pólskumælandi starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum til að veita Pólverjum ráðgjöf og aðstoða þá við atvinnuleit. Þá hefur evrópska vinnumiðlunin Eures verið samþætt innlendri vinnumiðlun til að bregðast við fjölgun erlendra ríkisborgara sem þurfa á þjónustu Vinnumálastofnunar að halda.
Rafræn skráning atvinnulausra
Vinnumálastofnun hefur ráðist í gerð rafrænnar skráningar atvinnulausra og er stefnt að því að taka kerfið í notkun í byrjun október. Með því geta atvinnulausir skráð sig á netinu hvar sem þeir eru staddir. Þeir þurfa þá einungis að mæta á þjónustuskrifstofu til að staðfesta umsókn með undirskrift og skila inn viðeigandi fylgigögnum. Kerfið verður þróað frekar á næstu mánuðum, meðal annars til að bæta þjónustuna enn frekar og auka sjálfshjálp atvinnuleitenda og atvinnurekenda við vinnumiðlun.
Minnisblað um stöðu á vinnumarkaði (PDF, 73,3KB)