Rekstur ríkissjóðs janúar-júní 2008
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 28. ágúst 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Uppgjör ríkissjóðs eftir fyrri helming ársins liggur nú fyrir.
Heildargjöld tímabilsins námu 197,2 milljörðum króna, sem er rúmum 13 milljörðum króna undir áætlun, en fjárlög gerðu ráð fyrir að heildarútgjöld yrðu rúmir 210 milljarðar króna. Í töflunni sést hvernig gjöldin skiptast.
Eins og kemur fram í töflunni er heildargjöldum ríkissjóðs skipt í fjóra flokka eftir eðli þeirra. Undir rekstrargjöld fellur allur venjulegur rekstur stofnana á vegum ríkisins og er sá liður tæpum tveimur milljörðum króna undir áætlun fjárlaga.
Rekstrartilfærslur eru ýmiss konar styrkir og bótagreiðslur, sem greiddar eru úr ríkissjóði og er þessi liður um 4,8 milljörðum króna innan áætlunar eftir fyrri helming ársins og munar þar mestu að greiðslur til atvinnuleysistrygginga hafa verið lægri en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga.
Vaxtagöld ríkissjóðs eru nánast á áætlun, en liðurinn viðhalds- og stofnkostnaður er rúmum 6 milljörðum króna innan áætlunar tímabilsins. Undir þennan lið falla framkvæmdir í samgöngumálum, sem farið hafa ívið hægar af stað en gert var ráð fyrir í fjárlögum.
Útgjöld ríkissjóðs janúar-júní 2008 í m.kr.
Flokkur
|
Gjöld
|
Áætlun
|
Frávik
|
Hlutfall %
|
---|---|---|---|---|
Rekstrargjöld |
94.977
|
96.922
|
1.944
|
2,0
|
Rekstrartilfærslur |
76.531
|
81.351
|
4.820
|
5,9
|
Vaxtagjöld |
9.620
|
9.719
|
98
|
1,0
|
Viðhald og stofnkostnaður |
16.125
|
22.298
|
6.172
|
27,7
|
Samtals |
197.254
|
210.289
|
13.035
|
6,2
|
Fjármálaráðuneytið hefur á hendi eftirlits- og upplýsingaskyldu gagnvart ríkisstjórn og Alþingi um framkvæmd fjárlaga og skal ársfjórðungslega gera grein fyrir stöðu einstakra fjárlagaliða. Ráðuneytin ásamt forstöðumönnum stofnana þeirra bera hvert um sig ábyrgð á rekstri sinna verkefna. Í reglugerð er kveðið á um skyldur ráðuneyta og forstöðumanna til þess að bregðast við ef útgjöld verða meira en 4% umfram heimildir hverju sinni og grípa til aðgerða þannig að rekstur verði í samræmi við heimildir fjárlaga.
Samkvæmt uppgjöri bókhalds eru 119 fjárlagaliðir með halla umfram 4% af fjárheimildum, sem er lítilsháttar fækkun frá því á sama tíma í fyrra, þegar að 123 fjárlagaliðir voru með meiri halla en sem nam 4% af heimildum.