Ríkissáttasemjari
Embætti ríkissáttasemjara sem starfar á grundvelli laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum, er laust til umsóknar. Skipað er í embættið til fimm ára, frá 1. nóvember 2008. Skrifstofa embættisins er í Reykjavík.
Ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar. Skal þess því gætt að afstaða hans sé slík að telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Enn fremur er lögð áhersla á forystuhæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum.
Konur jafnt sem karlar eru hvött til að sækja um stöðuna.
Umsóknir skulu berast félags- og tryggingamálaráðuneytinu, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík, eigi síðar en 1. október næstkomandi.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun í embættið hefur verið tekin.
Nánari upplýsingar veitir ráðuneytisstjóri eða staðgengill hans.
Félags- og tryggingamálaráðuneytinu,
7. september 2008.