Vöruskiptin í ágúst 2008
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 4. september 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands nam vöruinnflutningur 34,7 ma.kr. í ágúst. Er þetta töluvert minna en í sl. mánuði þegar innflutningur var 51,6 ma.kr. sem var óvenju mikið fyrir margar sakir.
Í ágúst drógust allir undirliðir innflutningsins hins vegar saman en hrá- og rekstrarvörur einna mest eftir gríðarmikinn innflutning í júlí. Sem fyrr skipar innflutningur á áloxíði stóran sess í þessum lið og var um 7 ma.kr. í ágúst en um 8,2 ma.kr. í júlí. Einnig er töluverður samdráttur í innflutningi á eldsneyti og fjárfestingarvörum en hvort tveggja var með mesta móti í júlí. Innflutningur flutningatækja dregst einnig saman líkt og undanfarna mánuði og hefur verðmæti innfluttra fólksbifreiða í einum mánuði ekki verið eins lágt í nokkur ár. Áhrif veikara gengis á kaupmátt landsmanna erlendis eru að koma fram af meiri þunga og það hefur einnig áhrif á innflutning varanlegra neysluvara sem dregst saman jafnt og þétt um þessar mundir.
Vöruútflutningur nam 31,4 ma.kr. í ágúst sem er eilítið minni útflutningur en í júlí. Útflutningur á áli dróst lítillega saman en heimsmarkaðsverð á áli lækkaði nokkuð í ágúst og hefur meðalmánaðarverð á áli ekki verið lægra síðan í febrúar sl. Vöruskiptahallinn nam því 3,4 ma.kr. að þessu sinni.
Á fyrstu 7 mánuðum ársins hefur útflutningur aukist um 18,8% að magni til en í vorspá ráðuneytisins er gert ráð fyrir 17,6% magnaukningu fyrir yfirstandandi ár í heild. Þar var gert ráð fyrir 8,9% samdrætti í útflutningi sjávarafurða að magni til, en á fyrstu 7 mánuðum ársins nam samdrátturinn einungis 2,7%. Annar stór liður, útflutningur á áli hefur aukist að magni til um tæplega 64% á sama tíma en í vorspá ráðuneytisins var spáð tæplega 70% magnaukningu. Er enn gert ráð fyrir að sú spá haldi þar sem framleiðsla Alcoa Fjarðaál komst ekki á fullt stig fyrr en í apríl á þessu ári.
Innflutningur vöru dróst saman um 3,2% á fyrstu 7 mánuðum ársins en í vor var spáð 2,3% samdrætti fyrir árið í heild. Eitt þeirra atriða sem útskýra þróunina er að innflutningur á eldsneyti og olíum hefur dregist saman um 1% að magni til á fyrstu 7 mánuðum ársins. Innflutningur nauðsynjavarnings hefur aftur á móti aukist nokkuð að magni til þrátt fyrir töluverðar verðhækkanir á þessu tímabili.
Það sem af er ári er hallinn á vöruskiptunum um 45 ma.kr. en í vorspá ráðuneytisins var spáð 57,2 ma.kr. halla fyrir árið í heild sinni og er ekki ósennilegt að sú spá haldi þar sem ekki er gert ráð fyrir miklum halla síðustu fjóra mánuði ársins. Athygli skal þó vakin á því að upplýsingar varðandi verslun með flugvélar berast Hagstofunni jafnan seint. Því má gera ráð fyrir einhverjum breytingum á inn- og útflutningstölum fyrir síðustu 2-3 mánuði.