Hoppa yfir valmynd
11. september 2008 Innviðaráðuneytið

Tvær reglugerðir um flugmál til umsagnar

Drög að tveimur reglugerðum er varða flugmál eru nú til umsagnar og er hagsmunaaðilum boðið að senda umsagnir sínar til samgönguráðuneytisins í síðasta lagi fyrir 1. október. Skulu þær sendar á netfangið [email protected]

Reglugerðirnar eru:

1. Reglugerð um veitingu flugrekstrarleyfa, markaðsaðgang flugrekenda, fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

2. Reglugerð um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála.


Um 1. lið: Innleiðingin varðar fimm gerðir Evrópusambandsins, þ.e. tvær gerðir sem standa sér hvor um sig (2407/92 og 2409/92) og svo eina (2408/92) sem felur í sér umtalsverðar breytingar á tveimur öðrum (sjá 1. og 2. lið hér að neðan). Ekki er um að ræða nýtt regluverk heldur er verið að fullnægja áskilnaði EES-samningsins um innleiðingu reglna sem hafa verið í gildi um nokkurt skeið hér á landi. Reglugerðirnar hafa verið aðlagaðar að því stjórnskipulagi sem gildir hér á landi.

? Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2407/92 um veitingu flugrekstrarleyfa til handa flugfélögum
? Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2408/92 um aðgang bandalagsflugfélaga að flugleiðum innan bandalagsins
1. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2343/90 um aðgang flugfélaga að áætlunarflugleiðum innan bandalagsins og skiptingu á sætaframboði fyrir farþega milli flugfélaga í áætlunarflugi milli aðildarríkja
2. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 294/91 frá 4. febrúar 1991 um rekstur farmflugs milli aðildarríkjanna
? Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2409/92 um fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu

Markmiðið með reglunum er að samræma reglur á EES-svæðinu varðandi veitingu flugrekstrarleyfa til handa flugfélögum, auka aðgang flugrekenda að markaðssvæðum innan EES-svæðisins, bjóða fram aukið sætaframboð fyrir farþega og afnema höft í farmflutningi. Þá eru settar samræmdar reglur um fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu á EES-svæðinu. Með þessum hætti er stuðlað að aukinni samkeppni á EES-svæðinu.

Reglugerðin fjallar um skilyrði fyrir veitingu og áframhaldandi gildi flugrekstrarleyfa til handa flugfélögum sem hafa staðfestu innan EES-svæðisins, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 2407/92 um veitingu flugrekstrarleyfa til handa flugfélögum.

Flutningar á lofti á farþegum, pósti og/eða vörum með loftförum sem eru ekki vélknúin og/eða með fisjum, svo og svæðisbundið flug sem felur ekki í sér flutninga milli flugvalla, fellur ekki undir reglugerðina, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 2407/92.

Reglugerðin varðar jafnframt aðgang að flugleiðum innan EES-svæðisins í áætlunarflugi og óreglubundnu flugi, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 2408/92 um aðgang bandalagsflugfélaga að flugleiðum innan bandalagsins. Reglugerðin fjallar auk þess um viðmið og reglur um hvernig ákveða skuli fargjöld og farmgjöld flugfélaga í flutningum innan EES-svæðisins, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 2409/92 um fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu.

Einungis flugfélög á EES-svæðinu eiga rétt á að bjóða nýja þjónustu eða lægri fargjöld en þau sem nú eru í gildi fyrir sams konar þjónustu, sbr. 3. mgr. 1. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 2409/92. Þrátt fyrir framangreint gildir reglugerðin ekki um:
a) fargjöld og farmgjöld hjá öðrum flugfélögum en flugfélögum á EES-svæðinu;
b) fargjöld og farmgjöld sem eru ákveðin með hliðsjón af skyldum um opinbera þjónustu samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2408/92 um aðgang bandalagsflugfélaga að flugleiðum innan bandalagsins.

Um 2. lið: Innleiðingin varðar átta gerðir Evrópusambandsins, þ.e. eina frumreglugerð sem er reglugerð ráðsins nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála og sjö breytingargerðir á henni sbr. eftirfarandi:

? Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála;
Eftirtaldar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar, Evrópuþingsins og ráðsins um breytingar á framangreindri reglugerð ráðsins:
? Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 2176/96 frá 13. nóvember 1996;
? Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1069/1999 frá 25. maí 1999;
? Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 2871/2000 frá 28. desember 2000;
? Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1899/2006 frá 12. desember 2006;
? Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1900/2006 frá 20. desember 2006;
? Reglugerð ráðsins nr. 8/2008 frá 11. desember 2007 og
? Reglugerð ráðsins nr. X/2008.

Síðastnefnda reglugerðin hefur ekki enn verið tekin inn í EES samninginn en er væntanleg á næstunni. Felur hún í sér innleiðingu á nýjum III. viðauka við reglugerðina sem birt verður sem viðauki við nýja reglugerð um flutningaflug þegar þar að kemur.

Markmiðið með reglugerðinni er að samræma tæknikröfur og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála til að auka öryggi í flugi. Leitast er við að samræma tæknikröfur og stjórnsýslumeðferð sem tengjast öruggum rekstri loftfara með tilliti til JAR-reglna Samtaka flugmálastjórna í Evrópu.

Reglugerðin gildir um samhæfingu tæknikrafna og stjórnsýslumeðferðar á sviði öryggis í almenningsflugi í tengslum við starfrækslu og viðhald loftfars og þá aðila og fyrirtæki sem taka þátt í slíkum verkefnum. Framangreint gildir um öll loftför sem flugrekendur nota, í samræmi við skilgreiningu a-liðar 2. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3922/91, hvort sem þau eru skráð í aðildarríki eða í þriðja landi.

Reglugerðunum hefur verið skeytt saman í eina reglugerð (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91 með síðari breytingum) til að þær verði aðgengilegri fyrir notendur, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerðina. Reglugerðirnar hafa verið aðlagaðar að því stjórnskipulagi sem gildir hér á landi.


Reglugerðardrög um veitingu flugrekstrarleyfa, markaðsaðgang flugrekenda, fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Reglugerðardrög um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta