Hoppa yfir valmynd
12. september 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Endurvinnsluvika hófst í dag

Við setningu endurvinnsluviku.
Við setningu endurvinnsluviku

Tæplega 91% Íslendinga flokkar sorp til endurvinnslu samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent gerði fyrir Úrvinnslusjóð. Þetta var meðal þess sem kom fram við setningu endurvinnsluvikunnar í dag.

Það var Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sem setti endurvinnsluvikuna í Menntaskólanum við Hamrahlíð í dag. Endurvinnsluvikan verður nýtt til að kynna mikilvægi endurvinnslu fyrir íslenskt samfélag. Sérstök áhersla verður lögð á kynningu fyrir unglinga þar sem kannanir benda til að fólk á aldrinum 16-20 ára standi sig einna verst í flokkun sorps. Til dæmis segjast ríflega 15% unglinga á aldrinum 16-20 ára aldrei flokka sorp en sambærileg tala fyrir alla aldurshópa yfir 16 ára aldri er 9,2%.

Á meðan á endurvinnsluvikunni stendur verður lögð sérstök áhersla á að kynna úrræði til endurvinnslu í framhaldsskólum landsins. Sérstakt kennsluefni fyrir framhaldsskóla hefur verið unnið í tilefni endurvinnsluvikunnar. Vefsíða Úrvinnslusjóðs hefur verið endurbætt með það að markmiði að upplýsa betur um þau úrræði sem standa til boða í hverjum landshluta fyrir sig. Nokkur fyrirtæki í endurvinnslugeiranum hafa opið hús fyrir framhaldsskóla á síðasta degi vikunnar, föstudaginn 19. september.

Þetta er í fyrsta sinn sem endurvinnsluvika er haldin hér á landi en hún er haldin að evrópskri fyrirmynd. Það er Úrvinnslusjóður sem stendur að átakinu í samvinnu við umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Gámaþjónustuna, SORPU, Íslenska gámafélagið og Endurvinnsluna.

Samkvæmt áðurnefndri könnun segjast nær 19% aðspurðra alltaf flokka sorp til endurvinnslu og um 37% oft. Um 35% segjast flokka sorp stundum eða sjaldan. Hlutfall þeirra sem flokka sorp til endurvinnslu hefur hækkað frá síðustu mælingu árið 2006, þegar um 84% sögðust flokka sorp.

Heimasíða Úrvinnslusjóðs.

Endurvinnanlegt sorp 


Árlega falla til 63 kg af pappa og pappír (t.v.) og 46 kg af plasti (t.h.) á hvern Íslending að meðaltali. Lengst til hægri má sjá kubb sem inniheldur 1.000 áldósir. Árlega falla til 40.000 slíkir á Íslandi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta