Nefnd til að kanna stöðu fjármálalæsis á Íslandi
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, skipaði nýverið í nefnd til þess að kanna stöðu fjármálalæsis á Íslandi, meta þörf á aðgerðum til að bæta þekkingu almennings á vörum og þjónustu fjármálafyrirtækja og gera tillögur um aðgerðir. Nefndinni er ætlað að skila viðskiptaráðherra skýrslu eigi síðar en 31. desember 2008.
OECD hefur á undanförnum árum ritað greinar og birt rannsóknir um fjármálalæsi en niðurstöður benda til þess að neytendur í aðildarríkjum hafi takmarkaða þekkingu á fjármálavörum. OECD hefur því hvatt aðildarríkin að efla fjármálalæsi í heimalandi sínu. Þær ástæður sem OECD nefnir eru m.a:
- Skuldir: Auðveldari aðgangur neytenda að fjármagni hefur leitt til aukinnar skuldasöfnunar en margir ráða illa við skuldir og eiga jafnvel erfitt með að skilja hver kostnaðurinn er að skulda.
- Flóknar fjárfestingaleiðir: Neytendur standa í sí auknum mæli frammi fyrir því að taka ákvörðun um ólíkar og flóknar fjárfestingar en eiga í erfiðleikum með að skilja skilmála og áhættu sem fylgja þeim. Eins eru upplýsingar til neytenda orðnar mun flóknari og dreifðari en áður.
- Fjölbreyttar vörur: Með frjálsu markaðsflæði og þróun í upplýsinga- og samskiptatækni er auðveldara en áður að eignast vörur á lægra verði. Á internetinu má finna ótakmarkaðar auglýsingar á vörum sem eru sérsniðnar fyrir neytendur. Æ fleiri lenda í ógöngum með kaup á vörum gegnum netið, sérstaklega ungt fólk. Fyrirtæki nýta sér líka smáskilaboð (sms) til að ná til þeirra.
- ,,Baby boom” kynslóðin: Fyrsta ,,baby boom” kynslóðin fer á eftirlaun eftir 5-10 ár. Kynslóðir sem koma á eftir hafa hins vegar seinkað barneignum og börnum hefur fækkað á hverja fjölskyldu. Það þýðir (fyrir mörg lönd) færra vinnuafl á hvern eftirlaunþega í framtíðinni. Enn fremur hafa færst í aukana að eldri einstaklingar hætti fyrr á vinnumarkaðnum og eyði lengri tíma af ævinni í frítíma.
- Breytingar í lífeyrissparnaði: Lífeyrissparnaður er að færast meira á ábyrgð starfsmanna í stað vinnuveitenda.
- Fjársvik. Margir neytendur eiga erfitt með að átta sig á óprúttnum aðilum, sérstaklega í sambandi við fjárfestingar gegnum netið.
- Skortur á fjármálalæsi. Rannsóknir sýna að fjármálalæsi er almennt slæm á meðal neytenda en þó sérstaklega hjá þeim sem eru með litla menntun og lágar tekjur. Enn fremur sýna rannsóknir að neytendur telji sig vita meira um fjármál en þeir í raun gera.
Viðskiptaráðuneytið er aðili að alþjóðlegu tengslaneti OECD um fjármálalæsi, IGFE (International Gateway for Financial Education) og fylgist þar með þróun upplýsinga og námsefna til þess að auka fjármálalæsi neytenda.