Hoppa yfir valmynd
17. september 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 17. september 2008

4. tbl. 10. árg.
Útgefið 17. september 2008
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur:
www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang:
[email protected]

Fréttabréfið er einnig fáanlegt á PDF-formi sem er afar hentugt til útprentunar og sem unnt er að lesa með forritinu Adobe Acrobat Reader.

Undirritaðir og samþykktir kjarasamningar

Samningagerð ríkisins vegna síðasta kjarasamningatímabils er nú að mestu lokið og hafa laun starfsmanna verið leiðrétt hjá Fjársýslu ríkisins í samræmi við breytingar kjarasamninganna. Enn er þó ósamið við nokkur stéttarfélög sem voru með lausa kjarasamninga í vor og standa viðræður yfir við flest þeirra. Hér á eftir verður farið yfir helstu atriði nokkurra þessara samninga. Þá eru að hefjast viðræður við Landssamband lögreglumanna og Tollvarðafélag Íslands en kjarasamningar þeirra eru með gildistíma til 30. nóvember 2008.

Kjarasamningar samflots stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna

Einn sameiginlegur kjarasamningur við 20 af 22 stéttarfélögum innan Bandalags háskólamanna (BHM) var undirritaður 28. júní 2008. Tvö stéttarfélög BHM tóku ekki þátt í samflotinu Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Ljósmæðrafélag Íslands. Þrjú stéttarfélög sem standa utan bandalaga stóðu einnig að samflotinu þau eru: Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands, Stéttarfélag verkfræðinga og Lyfjafræðingafélag Íslands. Samningurinn (PDF 176 KB) er aðgengilegur á vef fjármálaráðuneytisins.

Stéttarfélag lögfræðinga felldi samninginn og var nýr samningur undirritaður 11. ágúst 2008. Sá samningur er samhljóða BHM samningnum að öðru leyti en því að hann tók gildi tveimur mánuðum síðar og honum fylgir ein sérstök bókun sem varðar tilteknar stofnanir.

Gildistími samninganna er frá 1. júní 2008 til 31. mars 2009 en gildistími kjarasamnings lögfræðinga er frá frá 1. ágúst 2008 til 31. mars 2009.

Hækkun mánaðarlauna
Fjórar nýjar launatöflur fylgja samningunum. Flest félögin eru á sameiginlegri launatöflu sem er með álagsþrepum. Sú tafla hækkar um kr. 20.300 og til viðbótar um 2,2%. Þessi prósentuhækkun er vegna þess að vísindasjóðurinn var felldur brott úr samningnum og hækkar launataflan sem því nemur. Þá kaus BHM að setja þá hækkun sem varð á framlagi í Fjölskyldu- og styrktarsjóð hjá öðrum viðsemjendum ríkisins á launatöflur félaganna.

Launatöflur Félags íslenskra náttúrufræðinga og Lyfjafræðingafélags Íslands eru með lífaldursþrepum svo sem verið hefur. Þær hækka á sama hátt.

Launatafla Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands og Stéttarfélags verkfræðinga er með álagsþrepum eins og sameiginlega taflan. Hún hækkar um kr. 20.300 og til viðbótar um 2,0%. Þetta er vegna þess að félögin völdu að hækka starfsmenntunarsjóð félaganna fremur en að setja þá hækkun sem varð á framlagi í Fjölskyldu- og styrktarsjóð hjá öðrum viðsemjendum ríkisins á launatöflu félaganna.

Vegna breytinga á launatöflunum skulu stofnanasamningar, þar sem álag er metið í prósentum, breytast í talningu álagsþrepa eftir því sem við á. Sem dæmi skal miða við tvö álagsþrep þar sem kveðið er á um 5% hækkun vegna álags.

Vísindasjóður lagður af, breytt tilhögun sí- og endurmenntunar
Vísindasjóður er lagður af frá og með gildistöku kjarasamningsins og launatöflur félaganna hækkaðar á móti. Þess í stað var samið um breytta tilhögun sí- og endurmenntunar háskólamanna. Um þetta er fjallað í bókun 4 með samningnum svo og í fylgiskjali 4.
Aðrar breytingar eru sambærilegar og í kjarasamningum sem gerðir voru í maí og voru kynntar í síðasta fréttabréfi.

  • Persónuuppbót í desember verður kr. 44.100.
  • Grein 12.2.5, um mat á ávinnslurétti veikindaréttar, var breytt þannig að ávinnslan er óháð stéttarfélagsaðild.
  • Heimild foreldra til að vera frá vinnu vegna veikinda barna er aukin úr 10 dögum í 12 daga.
  • Samningnum fylgir bókun um upplýsingagjöf, bókun um aðild að Endurhæfingarsjóði svo og bókanir um vísindasjóði.
  • Framlag í fjölskyldu- og styrktarsjóð er óbreytt en þess í stað hækkuðu launatöflur félaganna nema hjá Kjarafélagi Tæknifræðingafélags Íslands og Stéttarfélagi verkfræðinga.

Við útgáfu fréttabréfsins stóð yfir atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

Kjarasamningur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍHj) var ekki aðili að samfloti BHM félaga. Undirritaður var kjarasamningur við FÍHj (PDF 56 KB) þann 9. júlí 2008. Samningurinn gildir frá 1. júlí 2008 til 31. mars 2009. Samningurinn er í nokkrum atriðum frábrugðin „samflotssamningi“ BHM. Launatafla hækkar um tiltekna krónutölu og prósentuhækkun til viðbótar sem nýtt var til að halda sama bili á milli álagsþrepa. Hlutfallslegt bil á milli launaflokka riðlast við þetta en bil milli álagsþrepa er alltaf 2,5%. Önnur helstu atriði eru eftirfarandi:

  • Tímakaup fyrir yfirvinnu í hverjum launaflokki er nú 0,95% af mánaðarlaunum, í stað 1,0385%.
  • Grein 2.5.9 um geðdeildarfrí fellur brott. Þeir sem eru í starfi við undirritun samkomulagsins halda því á meðan á samfelldri ráðningu á geðdeild stendur.
  • Grein 2.6.2 um framlagningu vaktaskrá er nokkuð breytt og greinar sem kveða á um undanþágur frá næturvakt og bakvakt eru felldar brott. (Gr. 2.5.10 og 2.6.13).

Önnur atriði samningsins eru eins eða sambærileg við kjarasamning samflots BHM félaga.

Kjarasamningur Kennarasambands Íslands

Kjarasamningur við Kennarasamband Íslands (PDF 32 KB) var undirritaður 16. júní 2008. Samningurinn gildir frá 1. júní 2008 til 31. mars 2009. Allar tölur mánaðarlauna í launatöflu félagsins hækka um kr. 20.300 og taka yfirvinna og aðrir launataxtar, sem reiknaðir eru sem hlutfall af mánaðarlaunum, breytingum í hlutfalli við hækkun þeirra.

Með nokkrum undantekningum er samningurinn við Kennarasambandið á sömu nótum og við önnur stéttarfélög sem samið hefur verið við. Framlag í fjölskyldu- og styrktarsjóð hækkar um 0,20% frá næstu áramótum eins og hjá BSRB. Þá fylgdi samningnum yfirlýsing menntamálaráðherra vegna gildistöku nýrra framhaldsskólalaga. Unnið verður að útfærslu hennar í samstarfsnefndum framhaldsskólanna og skal þeirri vinnu lokið fyrir 1. október næstkomandi.

_______________

Innleiðing mannauðshluta Oracle

Í Fréttabréfi stjórnenda ríkisstofnana frá 29. maí sl. er kynning á nefnd sem á að hrinda í framkvæmd innleiðingu á mannauðshluta Oracle. Nefndin skal móta stefnu um hvaða upplýsingar er mikilvægt að hafa í mannauðshlutanum og leggja mat á hvaða upplýsingar ríkið í heild þarf á að halda. Einnig að sníða kerfið að þörfum ríkisstofnana, sem eru æði misjafnar hvað varðar stærð og viðfangsefni.

Í mannauðshluta Oracle eru eftirfarandi kerfishlutar; launakerfi, vakta- og viðverukerfi (vinnustund), starfsmannakerfi, sjálfsafgreiðsla starfsmanna, ráðningakerfi, ferðauppgjörskerfi, starfsþróunarkerfi og fræðslukerfi. Flestar þær stofnanir sem notast við mannauðshluta kerfisins í dag eru að nota vinnustund, starfsmannakerfið og sjálfsafgreiðslu starfsmanna. Almennt má því segja að sá hluti Oracle kerfisins sem býður upp á skráningu markvissra upplýsinga um mannauðinn hafa ekki verið nýttur.

Kerfishlutar OracleKerfishlutar Oracle

Nefndin hefur ákveðið að í byrjun október verði farið í þá vinnu að innleiða Vinnustund hjá sem flestum ríkisstofnunum. Hvað varðar sjálfsafgreiðslu starfsmanna þá hefur nefndin sett saman vinnuhóp sem hefur það markmið að fara yfir þann kerfishluta, breyta og aðlaga þannig að hann nýtist sem flestum stofnunum og sem fyrst. Stefnt er að því að vinna að innleiðingu á þessum hluta í lok ársins.

Hægt er að nálgast upplýsingar um hina ýmsu kerfishluta mannauðskerfisins á þjónustuvef Skýrr fyrir ríkisstofnanir (http://oebs.skyrr.is/). Neðst til vinstri á upphafssíðunni er hægt að sækja um sérstakan aðgang að síðunni.

Þær ríkisstofnanir sem hafa áform um að vinna að verkefnum er tengjast mannauðshluta Oracle eru sérstaklega hvattar til að leita til nefndarinnar og koma hugmyndum og /eða ábendingum sínum á framfæri. Með þessu er komið í veg fyrir tvíverknað og stofnanir ríkisins komast mögulega hjá því að taka á sig kostnað vegna útfærslna sem hugsanlega yrðu leystar miðlægt fyrir allt kerfið.

Tengiliður nefndarinnar er Helga Jóhannesdóttir, sem einnig veitir nánari upplýsingar. Netfang hennar er [email protected].

_______________

Mannauðshópur ríkisins

Starfsmannaskrifstofan hefur stofnað faghóp um mannauðsstjórnun í ríkisstofnunum með það að markmiði að styðja við stefnu ríkisins um árangursríkan ríkisrekstur.

Markmið faghópsins er að koma á skipulegri fræðslu um mannauðsstjórnun með einföldum aðgangi stjórnenda að upplýsingum um helstu aðferðir mannauðsstjórnunar einkum á vefsíðu starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins „Ríkisstarfsmenn“. Haldnir verða morgunverðarfundir þar sem helstu verkfæri mannauðsstjórnunar eru kynnt og fjallað um með hvaða hætti stjórnendum er kleift að útfæra fyrirmyndir í samræmi við aðstæður hverrar stofnunar. Faghópurinn er öllum opinn sem starfa að mannauðsmálum, allt frá ráðningu starfsmanna til starfsloka.

Stefnt er að því að halda fyrsta morgunverðarfund ársins í lok október og verður hann nánar auglýstur síðar.

Þeir sem komið hafa að stofnun hópsins eru: Ágústa H. Gústafsdóttir, Ásta Lára Leósdóttir og Helga Jóhannesdóttir frá fjármálaráðuneytinu, Sigríður Hrefna Jónsdóttir frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Guðrún C. Emilsdóttir frá ÁTVR, Ásgeir M. Kristinsson frá Vegagerðinni, Erna Einarsdóttir og Oddur Gunnarsson frá Landspítala, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir frá Háskóla Íslands, Guðný Anna Arnþórsdóttir frá Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík og Pétur Einarsson frá Fjársýslu ríkisins.

_______________

Eineltiskönnun

Eins og lesendur Fréttabréfsins þekkja leiddi könnun á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna árið 2006 í ljós háa tíðni eineltis. Fjármálaráðuneytið hefur brugðist við með markvissum og fjölbreyttum hætti. Fyrrihluta ársins 2008 var gerð sérstök könnun til að meta tíðni eineltis innan ríkisstofnana. Tilgangur könnunarinnar var að spyrja með nákvæmari hætti um tildrög og birtingarmynd eineltis en gert var í starfsumhverfiskönnuninni árið 2006.

Niðurstöður

Niðurstöður eineltiskönnunarinnarinnar (PDF 268 KB) eru á þann veg að einn af hverjum fjórum ríkisstarfsmönnum telur sig hafa orðið vitni að einelti á núverandi vinnustað á síðustu 12 mánuðum. Ekki er um breytileika að ræða í svörun eftir aldri, menntun eða starfsaldri.

Rúmlega 10% ríkisstarfsmanna telja sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum. Ekki mældist marktækur munur milli kynja. Þeir starfsmenn sem töldu sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum voru beðnir um að svara hversu oft það var. Tæp 10% ríkisstarfsmanna svöruðu að þeir yrðu alltaf fyrir einelti þegar þeir væru í vinnunni. Rúm 70% töldu sig verða fyrir einelti að jafnaði einu sinni í viku eða sjaldnar.

Spurt var hversu lengi einelti hafi staðið yfir. Í 36% tilfella svöruðu starfsmenn að það hafi varað í tvö ár eða lengur og fannst enginn munur í svörum eftir kyni, aldri eða menntun. Ekki er munur á hvort starfsmenn verða fyrir einelti af hendi eins eða fleiri gerenda, 52% svöruðu að þeir hefðu orðið fyrir einelti af hendi eins geranda og 48% svöruðu að þeir hefðu orðið fyrir einelti af fleiri en einum (gerenda). Konur verða frekar fyrir einelti af hálfu eins geranda en karlar af fleiri en einum (gerenda). Þegar spurt var um stöðu geranda innan stofnunar kom í ljós að í flestum tilfellum er um samstarfsmenn að ræða eða í 44% tilfella, í 31% tilfella á næsti yfirmaður í hlut. Alls 57% ríkisstarfsmanna telja að tilurð eineltis megi rekja til öfundar og samkeppni af hálfu geranda og 32% starfsmanna telja að þeir hafi orðið þolendur eineltis vegna ólíks gildismats og lífskoðana sinna.

Algengustu áhrif eineltis á líðan þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum lýsa sér í kvíða við að koma til vinnu, skertu sjálfstrausti, minnkuðu starfsframlagi og svefnröskunum. Einungis 12% þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum, lögðu fram formlega kvörtun vegna eineltisins. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar var formlegum kvörtunum vegna eineltis ekki fylgt eftir með viðeigandi hætti í 76% tilfella. Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að 62% ríkisstarfsmanna telja að slæmur stjórnunarstíll sé þess valdandi að einelti þrífist innan stofnana.

_______________

Ýmislegt fréttnæmt

Könnun meðal lesenda Fréttabréfs stjórnenda ríkisstofnana

Til umræðu hefur verið að breyta birtingarmáta Fréttabréfs stjórnenda ríkisstofnana. Starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins lagði fyrir lesendur fréttabréfsins stutta viðhorfskönnun í upphafi september. Tilgangur könnunarinnar var að meta viðhorf lesenda fréttabréfsins til birtingarmáta, tíðni útgáfu og lengdar fréttabréfsins. Niðurstöður könnunarinnar benda til að almennt kjósi lesendur að fá fréttabréfið oftar en nú eða allt að einu sinni í mánuði, lesendum finnst fréttabréfið hæfilega langt og kjósa flestir að fá fréttabréfið á slóð sem inniheldur fréttir.

Í kjölfar þessarar könnunar mun starfsmannaskrifstofan endurskoða birtingarmáta Fréttabréfs stjórnenda ríkisstofnana sem lesendur verða vonandi fljótlega varir við.

Norræn starfsmannaskipti

Á undanförnum árum hafa 8-10 starfsmenn farið á hverju ári til einhverra hinna Norðurlandanna með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. Umsóknarfrestur til þess að sækja um styrk fyrir árið 2009 er til 30. nóvember 2008 en upplýsingar um starfsmannaskiptin eru á vefsíðu fjármálaráðuneytisins. Þar er einnig að finna skýrslur frá styrkþegum.

_______________

Frá félagi forstöðumanna ríkisstofnana

Áherslur í starfi Félags forstöðumanna ríkisstofnana 2008-2009

Um þessar mundir er Félag forstöðumanna ríkisstofnana að hefja vetrarstarf sitt. Í félaginu eru tæplega 200 forstöðumenn sem stýra starfi 22.000 starfsmanna í 17.000 störfum sem annast mikinn hluta af stjórnsýslu ríkisins og margvíslegri þjónustu við alla landsmenn sem löggjafinn hefur ákveðið að innt skuli af hendi af þar til bærum ríkisstofnunum.

Félagið hefur þróast. Við stofnun félagsins, fyrir rúmum 20 árum, var það einkum félag forstöðumanna stofnana sem störfuðu einar á landsvísu. Nú eru nær allir forstöðumenn í félaginu. Þessi breyting endurspeglaðist vel í stjórnarkjöri á síðasta aðalfundi þegar inn í varastjórn komu forstöðumenn frá framhaldsskóla, heilbrigðisstofnun og löggæslu. Er það í fyrsta sinn sem slík breidd er í stjórninni og að þar sitji forstöðumenn frá flestum af stærri stofnanaflokkum. Eins og í öðrum félögum sem ekki hafa starfsmann, dreifist vinnan við að gera það sem gera þarf á stjórnarmenn og taka aðalmenn og varamenn jafnan þátt í störfum félagsins. Stjórnin reynir því að vinna markvisst, leggja áherslu á nokkur vel afmörkuð verkefni og einbeita sér að því að koma þeim í framkvæmd. Gert er ráð fyrir hafa sex stjórnarfundi á starfsárinu, þrjá fyrir jól og þrjá eftir jól til að móta stefnu, dreifa verkefnum og annast eftirfylgni.

Í lögum félagsins er m.a. tiltekið að allir núverandi forstöðumenn geti átt aðild að félaginu. Í sumar hefur verið farið yfir félagaskrána út frá því sjónarmiði að eðlilegast sé að útfærsla félagsins á því hverjir séu forstöðumenn dragi dám af ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og árlegri auglýsingu fjármálaráðuneytisins um forstöðumenn. Vinnan í sumar fólst í að samlesa félagaskrána og upptalninguna í lögunum og auglýsingunni og laga misræmi. Jafnframt var farið yfir hverjir væru tilgreindir sem forstöðumenn á heimasíðum ráðuneyta en falla ekki undir skilgreiningu starfsmannalaganna. Einnig var félagsskráin gerð þannig úr garði gerð að hún sé grundvöllur útsendinga á tölvupósti til félagsmanna og innheimtu félagsgjalda.

Fræðslustarf um ýmis efni tengd starfi og starfsumhverfi forstöðumanna hefur löngum verið uppistaðan í starfsemi félagsins. Sú starfsemi hefur einnig náð til millistjórnenda og sérfræðinga í ríkisrekstrinum. Það hefur mælst vel fyrir. Á síðustu árum hefur þessi starfsemi verið í góðu samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða við Háskóla Íslands, fjármálaráðuneytið og forsætisráðuneytið og verið er að móta fræðsludagskrá vetrarins. Fyrsti fundur vetrarins var haldinn í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða 16. september og þar fjölluðu þrír úrvalsfyrirlesarar, Eyþór Eðvarðsson MA í vinnusálfræði og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun ehf., Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ og Magnús Pétursson fv. ráðuneytisstjóri og forstjóri LSH um spurninguna hvort stjórnun forstöðumanna og millistjórnenda í opinberum rekstri sé oft í reynd stjórnun jafningja og/eða sérfræðinga og sé svo, hvaða stjórnunarhættir séu líklegir til árangurs?

Félagsmenn eru dreifðir um landið. Mikilvægt er að allir félagsmenn hafi sem jafnast aðgengi að starfsemi félagsins. Áhugi er hjá forstöðumönnum utan höfuðborgarsvæðisins að taka upp fræðslufundi, allavega framsöguræður, og senda þá annaðhvort beint út á netinu eða að félagsmenn geti haft aðgang að upptökum af fundum t.d. á heimasíðu félagsins. Tengt þessu er að endurskoða heimasíðu félagsins svo sem hlutverk heimasíðunnar, ritstjórnarstefnu, aðgangsstýringar, tækni og rekstrarfyrirkomulag. Stjórnin hefur þegar hafið vinnu við að kanna hvaða fyrirkomulag sé heppilegast, hvaða möguleikar séu fyrir hendi og hvað þeir kosti.

Haukur Ingibergsson
Formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta