Umhverfisráðherra ræðir orku- og loftslagsmál í Brussel
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra fór til Brussel 15.-16. september til að ræða um stefnumótun Evrópusambandsins í orku- og loftslagsmálum. Af því tilefni hitti hún að máli þingmenn Evrópuþingsins, fulltrúa Ráðherraráðs Evrópusambandsins og fulltrúa íslenskra stjórnvalda og hagsmunasamtaka í Brussel.
Í Evrópuþinginu ræddi umhverfisráðherra við Avril Doyle, þingkonu og talskonu umhverfisnefndar þingsins, um áhrif breyttrar tilskipunar um viðskipti með gróðurhúsalofttegundir. Þær ræddu m.a. áhrif tilskipunarinnar á Íslandi, en samkvæmt breyttingartillögu mun hún ná yfir losun gróðurhúsalofttegunda frá álverum og járnblendiverksmiðjum frá og með árinu 2013. Einnig ræddu þær um hvaða áhrif uppboð á losunarheimildum gætu haft í för með sér vegna slíks iðnaðar ef ekki næðist alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum, t.d. hvað varðar samkeppnisstöðu fyrirtækja ef minni kröfur yrðu gerðar til umhverfismála í öðrum heimshlutum. Þá ræddu þær hvernig landgræðsla og skógrækt gætu komið inn í tilskipunina vegna bindingar á koltvísýringi og hvernig þekking Íslendinga á notkun jarðhita gæti nýst í öðrum löndum.
Umhverfisráðherra ræddi einnig við þingmennina Claude Turmes, talsmann iðnaðar- og orkunefndar og Anders Wijkman, talsmann umhverfisnefndar þingsins um tilskipun um nýtingu endurnýjanlegrar orku. Sérstaklega var rætt um hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi og hvernig Ísland gæti nýtt sér þá sérstöðu. Umhverfisráðherra ræddi og við Satu Hassi, þingkonu og talskonu umhverfisnefndar þingsins vegna ákvörðunar um skiptingu byrðarinnar (e. effort sharing). Þar er um að ræða tillögu, sem ekki verður hluti af EES samningnum en er mikilvæg í stefnu Evrópusambandsins í loftslagsmálum.
Auk ofangreindra funda átti umhverfisráðherra fund með Jaroslaw Pietras, aðalframkvæmdastjóra Ráðherraráðsins, þar sem farið var yfir stöðu málsins hjá ráðinu og næstu skref.
Tillögur ESB í orku- og loftslagsmálum
Tillögur ESB í orku- og loftslagsmálum eru í vinnslu og stefnt er að samkomulag náist um þær í lok þessa árs. Um er að ræða tillögur til að fylgja eftir staðfestri aðgerðaráætlun ESB í loftslagsmálum. Í mars 2007 samþykktu Ráðherraráðið og Evrópuþingið tillögur Framkvæmdastjórnarinnar um að dregið yrði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20% árið 2020, miðað við losun árið 1990, og allt að 30% ef alþjóðlegt samkomulag næðist um slíkt. Þá var samþykkt að endurnýjanleg orka yrði 20% af allri orkunotkun ESB árið 2020 og að nýting eldsneytis skyldi aukin um 20% á sama tímabili. Ráðherraráðið og Evrópuþingið fólu svo Framkvæmdastjórninni að vinna að framgangi málsins.
Stefnt er að því að samkomulag náist milli Evrópuþingsins og Ráðherraráðsins þannig að tillögurnar geti orðið framlag Evrópusambandsins á fundi loftslagsssamnings Sameinuðu þjóðanna í Poznan í Póllandi nú í desember. ESB stefnir að því að staðfesta tillögurnar sem lög næsta vor. Poznan fundurinn er til undirbúnings Kaupmannahafnarfundinum sem haldinn verður í desember 2009. Á þeim fundi er ætlunin að ná samkomulagi um hvað tekur við þegar skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar lýkur 31. desember 2012.
Skrifstofur SA og Sambands íslenkra sveitarfélaga
Í ferð sinni til Brussel heimsótti umhverfisráðherrra einnig skrifstofu Samtaka atvinnulífsins og skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á skrifstofu Samtaka atvinnulífsins, sem Sigrún Kristjánsdóttir veitir forsöðu, kynntu fulltrúar Business Europe sjónarmið iðnaðarins í aðildarríkjunum til tillagna um losunarkvóta og uppboðsleiðina. Á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem Anna Margrét Guðjónsdóttir veitir forstöðu, var farið yfir helstu mál á döfinni, sem snerta starfsemi sveitarfélaganna, s.s. loftslagsmálin, fráveitumál, úrgangsmál og skipulags- og byggingarmál.
Með umhverfisráðherra í för voru Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarkona ráðherra, og Glóey Finnsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu. Auk þeirra sóttu fundina Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, staðgengill sendiherra og Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri, fulltrúi umhverfisráðuneytisins í sendiráðinu í Brussel.