Hoppa yfir valmynd
19. september 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Framhaldsskólar hvattir til endurvinnslu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra heilsa upp á Karl Sigurðsson, ármann skólafélags MS.
Í Menntaskólanum við Sund

Nú stendur endurvinnsluvika sem hæst en hún er haldin til að kynna mikilvægi endurvinnslu fyrir íslenskt samfélag. Sérstök áhersla hefur verið lögð á kynningu fyrir unglinga með útgáfu kennsluefnis, uppsetningu endurvinnslutunna í framhaldsskólum og ýmsum verkefnum innan skólanna.

Í tilefni endurvinnsluvikunnar heimsóttu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra Menntaskólann við Sund í dag og kynntu sér hvernig skólinn tekur virkan þátt í verkefninu. Már Vilhjálmsson, rektor MS, kynnti ráðherrunum starfið og fram kom hjá honum að skólinn hefði nú sett sér þau markmið að minnka losun sorps í skólanum um 10% á þessu ári og draga sérstaklega úr sóun á pappír. Þórunn og Þorgerður Katrín heimsóttu einnig kennslustund í lífsleikni þar sem nemendur voru að vinna verkefni um umhverfismál.

Auk þess að kynna endurvinnslu í framhaldsskólum hefur vefsíða Úrvinnslusjóðs verið endurbætt með það að markmiði að upplýsa betur um þau úrræði sem standa til boða í hverjum landshluta fyrir sig. Þar geta kennarar framhaldsskóla einnig nálgast kennsluefni.

Þetta er í fyrsta sinn sem endurvinnsluvika er haldin hér á landi en hún er haldin að evrópskri fyrirmynd. Það er Úrvinnslusjóður sem stendur að átakinu í samvinnu við umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Gámaþjónustuna, SORPU, Íslenska gámafélagið og Endurvinnsluna. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra setti endurvinnsluvikuna í Menntaskólanum við Hamrahlíð föstudaginn 12. september.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta