Hoppa yfir valmynd
19. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Landsfundur jafnréttisnefnda

Jafnréttisnefndir sveitarfélaga héldu 25. landsfund sinn í Mosfellsbæ í gær og í dag, en slíkur fundur var fyrst haldinn á Akureyri árið 1983. Á fundinum var meðal annars kynntur Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum. Tvö sveitarfélög undirrituðu sáttmálann, fyrst sveitarfélaga á Íslandi, en það eru Akureyrarkaupstaður og Mosfellsbær.

Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði fundinn fyrir hennar hönd og ræddi meðal annars um ábyrgð sveitarstjórna og jafnframt tækifæri þeirra til að stuðla að jafnrétti kynjanna: Ég trúi því og treysti að undirritun sáttmálans verði sveitarfélögum hvatning til að standa sig og gera betur í jafnréttismálum og ég hvet til þess að sveitarstjórnir kynni sáttmálann fyrir íbúum á markvissan hátt og geri þeim grein fyrir þeirri ábyrgð sem í honum felst. Nálægð sveitarstjórna við íbúa sína veitir þeim mikla möguleika til að hafa áhrif og móta samfélagið þannig að raunverulegt jafnrétti sé iðkað á öllum sviðum sem eðlilegur og sjálfsagður hluti af daglegu lífi. Jafnréttismál eiga ekki að vera einangrað fyrirbrigði sem unnið er að af og til þegar tími gefst til. Jafnréttismál eiga ekki að vera átaksverkefni sem spretta upp hér og þar, af og til, en liggja dauð þess á milli. Jafnrétti skal ástundað allan sólarhringinn, alla daga ársins, alls staðar. Þá verður það með tíð og tíma jafn sjálfsagt og að draga andann.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta