Hoppa yfir valmynd
22. september 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skattar og hagvöxtur

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 18. september 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

OECD gaf nýlega út rannsóknarritgerð um samband skattlagningar og hagvaxtar.

Í rannsókninni kemur m.a. fram hvernig samsetning skattkerfisins getur haft áhrif á vöxt landsframleiðslunnar í gegnum hagnýtingu og framleiðni vinnuaflsins.

Almennt hefur verið talið að erfitt sé að greina tengsl milli skattbyrði og stærðar hins opinbera annars vegar og vaxtar landsframleiðslunnar hins vegar. Í þessari rannsókn er farin sú leið að bera saman landsframleiðslu á mann sl. þrjá áratugi við ýmsa mælikvarða skattkerfisins meðal OECD-ríkjanna.

Sköttunum er skipt í tvo flokka; skatta á tekjur og hagnað (beinir skattar) annars vegar og skatta á vörur og þjónustu (óbeinir skattar) hins vegar. Beinum sköttum er síðan skipt niður á tekjuskatt einstaklinga og tekjuskatt fyrirtækja. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að þau lönd sem eru með hærra hlutfall óbeinna skatta á móti beinum sköttum uppskáru meiri hagvöxt á umræddu tímabili.

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar nánar kemur í ljós að mismunur milli landa í skattlagningu einstaklinga virðist hafa minni neikvæð áhrif á vöxt landsframleiðslunnar heldur en mismunur í skattlagningu fyrirtækja. Ísland kemur vel út hvað þetta varðar. Tekjuskattur fyrirtækja er 15% hér á landi á móti 28% meðaltali OECD-ríkja. Einungis Ungverjaland og Írland eru með lægri tekjuskatt fyrirtækja en Ísland. Almennt séð hefur tekjuskattsprósenta á fyrirtæki lækkað í OECD- ríkjum frá árinu 2000 en í nokkrum tilvikum er hún sú sama. Í engu tilviki var hún hækkuð á umræddu tímabili.

Skattar hafa áhrif á hagnýtingu vinnuaflsins í gegnum hvort tveggja framboð og eftirspurn þess. Hár tekjuskattur einstaklinga hefur tilhneigingu til að draga úr heildaratvinnuþátttöku. Annars vegar dregur hátt skattstig úr atvinnuþátttöku þeirra lægst launuðu og hins vegar hefur það áhrif til að auka fjölda vinnustunda vegna þess að hærri sköttum fylgja lægri ráðstöfunartekjur. Þetta á sérstaklega við um karla. Staðkvæmdaráhrif eru sterkari hjá konum, þ.e. þær hafa frekar tilhneigingu til að draga úr vinnu með aukinni skattlagningu. Stighækkandi skattþrep (e. progressive taxation), sem miðast við að auka jöfnuð ráðstöfunartekna ólíkra hópa, hefur áhrif til að draga úr atvinnuþátttöku og fækka vinnustundum, sérstaklega hjá konum.

Niðurstöðurnar benda frekar til að lægri skattþrep leiði til aukinnar fjárfestingar í mannauði. Tölfræðilegar rannsóknir eru þó ekki ótvíræðar hvað þetta varðar. Þá draga háir tekjuskattar á fyrirtæki úr atvinnuvegafjárfestingu.

Hvað varðar heildarþáttaframleiðni, sem er samvegin framleiðni vinnuafls, fjármagns og annarra framleiðslu- þátta, benda rannsóknirnar til að flóknir og ógegnsæir skattar á aðföng, eignir eða fyrirtæki trufli ráðstöfun fjármuna sem dragi úr vexti framleiðninnar. Háir jaðarskattar á tekjur einstaklinga og fyrirtækja hafa tilhneigingu að draga úr hvata til frumherjastarfsemi og þar með hagvexti. Háir tekjuskattar á fyrirtæki í alþjóðlegu samhengi hafa áhrif til að hindra innstreymi beinnar erlendrar fjárfestingar. Slíkt hefur áhrif til að halda aftur af mögulegum vexti framleiðninnar og hagvexti þar sem minni tækniþekking berst frá erlendum fyrirtækjum til innlendra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta