Þátttaka Íslands í heimssýningunni EXPO 2010 í Shanghæ
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að Ísland taki þátt í heimssýningunni EXPO 2010 sem haldin verður í Shanghæ í Kína frá maí til október 2010. Þátttaka Íslands er samstarfsverkefni fyrirtækja og hins opinbera og hefur utanríkisráðuneytið umsjón með verkefninu.
Þema sýningarinnar er borgarsamfélagið, undir einkunnarorðunum „Betri borg, betra líf". Markmiðið með þátttöku Íslands er að vekja athygli á íslenskri orku og orkunýtingu, mannauði og menningu. Jafnhliða verður leitast við að skapa íslenskum fyrirtækjum viðskiptatækifæri.
Heimssýningin er haldin á fimm ára fresti með þátttöku flestra ríkja heims og að þessu sinni er gert ráð fyrir að um 400.000 manns sæki sýninguna daglega. Heimssýningin var síðast haldin í Aichi í Japan árið 2005. Þar voru Norðurlöndin með sameiginlega sýningu. Að þessu sinni munu Norðurlöndin eiga náið samstarf en hafa þó hvert sinn skála sem standa munu hlið við hlið á sýningarsvæðinu.
Ísland leggur metnað sinn í að taka þátt í þessum mikla viðburði og stefnir að því að kynna landið með vönduðum hætti en leggja minni áherslu á stærð sýningarrýmis. Í ljósi þess hefur verið ákveðið að leigja 1.000 m² skála af skipuleggjendum, en þess má geta að sýningarrými hinna Norðurlandanna eru á bilinu 3.000 til 6.000 m².
Heildarkostnaður er áætlaður um 620 m.kr. og er gert ráð fyrir að hlutdeild ríkisins fari ekki yfir 450 m.kr. Samningar við sex fyrirtæki liggja fyrir og vonast er til þess að fleiri aðilar komi að fjármögnun verkefnisins.
Gert er ráð fyrir að íslenskir listamenn taki þátt í verkefninu með margvíslegum hætti, auk þess sem þátttakan í heimssýningunni felur í sér gerð margvíslegs kynningarefnis um Ísland sem nýtt verður áfram að sýningu lokinni.
Verkefnið mun lúta framkvæmdastjórn undir forystu Péturs Ásgeirssonar, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu, skipaðri fulltrúum ráðuneytisins, Útflutningsráðs og Framkvæmdasýslu ríkisins. Framkvæmdastjórnin hefur samráðshóp sér til fulltingis sem í sitja fulltrúar stjórnvalda, fyrirtækja og hagsmunaaðila.
Hreini Pálssyni, sendiráðsritara í utanríkisráðuneytinu, hefur verið falið starf framkvæmdastjóra verkefnisins. Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Peking, verður tengiliður íslenskra stjórnvalda gagnvart kínverskum skipuleggjendum.
Auglýst verður eftir hönnuði fyrir sýningarrými Íslands á heimssýningunni á næstu vikum.
Frá og með 1. nóvember verða upplýsingar um framgang verkefnisins birtar á heimasíðunni www.expo2010.is og í mánaðarlegu fréttabréfi.