Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um skipulag og loftslagsbreytingar
Góðir gestir,
Loftslagsmál eru mikið til umræðu hér á Íslandi og um alla heimsbyggðina. Finnst sumum nóg um og þá kannski ekki síst hvernig loftslagsbreytingar eru tengdar við flest svið mannlegrar tilveru. Það er hins vegar staðreynd að loftslagið hefur áhrif á fleira en veðrið, því það einn megináhrifaþáttur lífríkisins og búsetu manna. Stór hluti athafna okkar hefur svo aftur áhrif á loftslagið; ferðalög, mataræði og atvinnustarfsemi, svo nokkuð sé nefnt. Loftslagsmál eru því ekki einhver "bóla" sem mun víkja fyrir nýjum umræðuefnum þegar við höfum fengið leið á þeim. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru eitt flóknasta og mikilvægasta úrlausnarefni mannkyns og við þurfum að skilja vel afleiðingar þeirra og orsakir og mögulegar leiðir til að draga úr þeim.
Það er vel til fundið af Skipulagsstofnun að efna til málþings um hvernig skipulagsmál tengjast loftslagsbreytingum. En þau gera það á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi, þá er ljóst að loftslagsbreytingar munu breyta ýmsu í náttúru okkar og lífsskilyrðum, sem taka þarf tillit til í skipulagi byggðar og byggingu mannvirkja. Nú þegar hafa menn í huga væntanlega hækkun sjávarborðs við skipulagningu hafna og annarra mannvirkja við ströndina. Í sumar kom út skýrsla íslenskrar Vísindanefndar um loftslagsbreytingar, sem ég skipaði. Þar segir að breytingar eiga sér nú þegar stað og hvernig þær munu að líkindum þróast á komandi áratugum. Þið fáið að heyra um skýrsluna hér á eftir, en hún er afar vel unnin og markar nokkur tímamót í umræðunni hér á landi.
Loftslagsbreytingar hafa nú þegar áhrif á vatnsbúskap á Spáni og í Ástralíu, á flóðahættu í Bangladesh og undirstöður húsa á nyrstu svæðum heims, sem skekkjast þegar freðmýrin þiðnar. Ísland er ekki meðal þeirra ríkja sem verst mun verða fyrir barðinu á loftslagsbreytingum, en við þurfum að laga okkur að þeim í nútíð og framtíð.
Það er kannski augljóst að breytingar á loftslagi og náttúrufarið hafa áhrif á skipulag, en getur skipulag haft einhver áhrif á loftslagið? Svarið er tvímælalaust já. Skipulag byggðar og starfsemi getur haft djúpstæð áhrif á mannlegar athafnir og á möguleika okkar að draga úr loftslagsbreytingum. Ákvarðanir í skipulagsmálum geta haft áhrif sem vara lengur en flestar aðrar í þessu samhengi. Þetta er meðal annars nefnt í 4. úttekt Vísindanefndar S.þ. um loftslagsbreytingar (IPCC), sem segir að ákvarðanir í skipulagsmálum núna geti haft áhrif í áratugi og jafnvel aldir fram í tímann varðandi forsendur aðgerða í loftslagsmálum. Þekkt dæmi um slíkt er Los Angeles, þar sem lengi var ágætt kerfi almenningssamgangna áður en öll áhersla var lögð á einkabílinn og uppbyggðar hraðbrautir til að greiða honum leið. Borgin dreifðist svo hratt um mikið flæmi án þess að vel skilgreind miðja væri til. Þessi hugmyndafræði gekk ágætlega upp þar til bílafjöldinn var orðinn svo mikill að hraðbrautirnar fóru að teppast á annatímum og Englaborgin varð sú mengaðasta í Bandaríkjunum. Þegar reynt var að vinda ofan af þessarri þróun og greiða veg almenningssamgangna á ný rákust menn á það að ekki var auðvelt að breyta afleiðingum ákvarðana sem teknar höfðu verið mörgum áratugum fyrr. Fleiri dæmi eru til um þetta og kannski þarf ekki að fara út fyrir landsteina til að finna þau.
Ég vil að lokum þakka Skipulagsstofnun fyrir að efna til þessa fróðlega málþings og vekja umræðu um málefni sem þarfnast góðrar íhugunar og skoðunar. Það þurfa allir að leggjast á árarnar til að draga úr loftslagsbreytingum: Ríkisstjórnir, atvinnulíf, sveitarfélög og einstaklingar og samtök þeirra. Framtíðarbyggðin, í borgum jafnt sem sveitum, á að taka eins mikið tillit til umhverfismála og hægt er. Slíkt er ekki einungis hagur náttúrunnar, þetta snýst ekki síður um mannvernd, eins og náttúruvernd. Skipulag er mikilvægt tæki til þess að móta stefnu um farsæla sambúð manns og náttúru. Ég vona að allir njóti þeirrar dagskrár sem hér er boðið upp á og að hér kvikni góðar og grænar hugmyndir um bætta byggð.
Takk fyrir,