Evrópski tungumáladagurinn 26. september 2008
Að frumkvæði Evrópuráðsins hefur tungumáladagsins verið minnst frá árinu 2001 með ýmsu móti í Evrópulöndum, þar með talið á Íslandi. Markmið Evrópska tungumáladagsins eru einkum að vekja athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu og fjölbreytts tungumálanáms til að auka fjöltyngi og skilning á ólíkri menningu þjóða, að stuðla að því að viðhalda fjölbreytileika tungumála og menningar í Evrópu og hvetja til símenntunar í tungumálanámi, bæði innan skólakerfisins og utan þess. Vakin er athygli á bæklingi með fjölmörgum hugmyndum að mögulegum verkefnum og aðgerðum á tungumáladeginum, sjá: www.menntamalaraduneyti.is/raduneyti/althjodlegt-samstarf/nr/384
Vakin er athygli á því að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur heldur Evrópska tungumáladaginn hátíðlegan að vanda og er dagskráin að þessu sinni skipulögð í samvinnu við STÍL.
Dagskráin hefst á tungumáladaginn 26. september kl. 14:30 og fer fram í stofu 101 á Háskólatorgi. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur einnig ákveðið að árið 2008 sé helgað tungumálum og falið UNESCO að sjá um framkvæmdina.
Slagorð ársins er: Tungumál skipta máli.
Frekari upplýsingar um verkefnið eru á slóðinni: http://portal.unesco.org/en.