Fjöldauppsagnir
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 25. september 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Sett hafa verið sérstök lög um hópuppsagnir þar sem kveðið er á um það hvernig atvinnurekandi skuli bera sig að ef hann áformar hópuppsagnir starfsmanna, en með hópuppsögnum er samkvæmt lögunum átt við uppsagnir atvinnrekanda á tilteknu hlutfalli starfsmanna á 30 daga tímabili.
Þegar starfsmenn segja upp starfi er hins vegar ekki að finna neina almenna skilgreiningu á því hvað felst í hugtakinu hópuppsögn eða fjöldauppsögn. Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna er þó gert ráð fyrir því að til fjöldauppsagna af hálfu starfsmanna geti komið. Mismunandi er samkvæmt þeim til hvaða úrræða hægt er að grípa ef um fjöldauppsagnir af hálfu starfsmanna er að ræða.
Samkvæmt meginreglunni sem kemur fram í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafa starfsmenn rétt til að segja upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Forstöðumanni stofnunar er þó heimilt að lengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði ef svo margir leita lausnar samtímis eða um líkt leyti í sömu starfsgrein innan stofnunar að það myndi hafa veruleg áhrif á starfsemi hennar. Skal forstöðumaður tilkynna starfsmanni innan tiltekins tíma ef uppsagnarfrestur er lengdur. Ákvæði starfsmannalaganna um heimild til að lengja uppsagnarfrest taka því aðeins til tiltekinnar stofnunar en ekki ótiltekins fjölda stofnana.
Meðan kjarasamningar eru í gildi ríkir svokölluð friðarskylda. Í friðarskyldunni felst að aðilar mega ekki á samningstímabilinu knýja fram breytingar á því sem um hefur verið samið með vinnustöðvun, þ.e. verkfalli eða verkbanni.
Þegar um kjaradeilu er að ræða milli stéttarfélags og ríkisins ber aðilum að fara eftir lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna á þeim tíma sem kjaradeilan stendur yfir. Samkvæmt lögunum er stéttarfélagi heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna með þeim skilyrðum og takmörkum sem sett eru í þeim.
Í lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna eru settar fram reglur um það með hvaða hætti heimilt er að vinna að lausn kjaradeilu með vinnustöðvun. Samkvæmt lögunum er boðun verkfalls því aðeins lögmæt að ákvörðun um hana hafi verið tekin í almennri leynilegri allsherjaratkvæðagreiðslu.
Til að samþykkja verkfallsboðun þarf a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna sem starfar hjá þeim sem verkfallið beinist gegn að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti þeirra að samþykkja hana. Ber stéttarfélagi að tilkynna ríkissáttasemjara og þeim sem vinnustöðvun beinist gegn ákvörðun um vinnustöðvun og skal verkfallsboðun vera skrifleg og kynnt viðtakanda á sannanlegan hátt.
Í lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna kemur fram að það teljist til verkfalla í skilningi laganna þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði og sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla. Með sambærilegum aðgerðum er m.a. átt við fjöldauppsagnir.
Fjöldauppsagnir flokkast því sem verkfallsaðgerðir þegar starfsmenn hafa með sér samstöðu og sammælast um að segja upp störfum í því skyni að knýja fram ákveðnar kröfur, þ.e.a.s. markmið og tilgangur aðgerða starfsmanna með fjöldauppsögn er að knýja viðsemjendur til að ganga til samninga á tilteknum grundvelli.