Jafnrétti í orði og verki
Vinátta, virðing og ábyrgð eru meðal mikilvægra forsendna jafnréttis kynja og jafnréttis í víðum skilningi. Þetta eru þættir sem Hjallastefnan leggur mikla rækt við og stuðlar að á markvissan hátt í orði og verki sagði Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, þegar hún ávarpaði starfsmenn Hjallastefnunnar á ráðstefnu þeirra í dag. Ráðherra sagði að frá upphafi hefði henni fundist hugmyndafræði skólastefnunnar áhugaverð, einkum og sér í lagi þær áherslur sem þar eru lagðar á jafnréttisuppeldi.
„Ég hef margsinnis sagt það í umræðum um jafnréttismál að árangursríkasta leiðin að jafnrétti sé að vera börnum góð fyrirmynd og innræta þeim jafnrétti í orði og verki frá blautu barnsbeini. Það eru gömul sannindi og ný að það læra börnin sem fyrir þeim er haft og því veltur jafnrétti framtíðarinnar ekki síst á uppeldi þeirra sem eru börn í dag.“
Ráðherra minntist á mikilvægi ákvæðis nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem tóku gildi í vor sem kveður á um að nemendur á öllum skólastigum skuli hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem meðal annars sé lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku á öllum sviðum samfélagsins. „Margrét Pála, frumkvöðull Hjallastefnunnar, hefur séð það fyrr en margir aðrir hve miklu skiptir að börn fái notið jafnréttisuppeldis í skólum og jafnframt að jafnrétti verður aldrei kennt eins og námsgrein heldur þarf að iðka það í öllum orðum og athöfnum daglegs lífs.“
Ávarp félags- og tryggingamálaráðherra á ráðstefnu starfsfólks Hjallastefnunnar