Hoppa yfir valmynd
26. september 2008 Matvælaráðuneytið

Nr. 29/2008 - Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva

04 Ávarp ráðherra
04

Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Nr. 29/2008

Ræða ráðherra á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fjallaði meðal annars um útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða og gengi íslensku krónunnar í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn var á Grand Hóteli í dag.

Við samanburð á útflutningsverðmæti þorsks fyrstu ellefu mánuði nýliðins fiskveiðiárs við sama tíma árið áður, kemur í ljós að verðmætin eru þremur og hálfum milljarði króna meiri á þessu tímabili á nýloknu fiskveiðiári en því fyrra. Útflutningsverðmæti þorsks námu tæplega 51 milljarði króna á móti rúmlega 47,5 milljörðum króna á sama tíma árið áður. Ekki liggja fyrir endanlegar upplýsingar um útflutningsverðmæti í ágústmánuði sl. og því ekki unnt að bera fiskveiðiárin saman í heild sinni.

„Jafnvel þótt ágúst 2007 sé tekinn með í dæmið þá eru útflutningsverðmæti þorsks fyrstu ellefu mánuði nýliðins fiskveiðárs þegar orðin meiri en á því fyrra. Það er því ljóst að þrátt fyrir hinn mikla samdrátt í þorskafla verður verðmæti útflutts þorsks heldur meira á síðastliðnu fiskveiðiári en árið á undan. Ástæður þessa eru tvenns konar. Annars vegar hefur verð á þorski hækkað á erlendum mörkuðum og hins vegar gengislækkunin.

Veit ég vel að þetta eru ekki allt krónur í vasann. Samhliða hafa útgjöld í sjávarútvegi aukist. Hækkandi olíuverð vegur hvað þyngst og er víða farið að valda miklum vanda. Auknar skuldir greinarinnar sem fylgja lækkun gengisins eru sömuleiðis alvarlegar og bíta sársaukafullt í efnahagsreikningi fyrirtækjanna. Þegar við bætast síðan svimandi háir vextir, er ástæða til að hafa áhyggjur. Okkur er öllum ljóst að þetta háa vaxtastig getur einfaldlega ekki gengið til nokkurrar lengdar.

Svo er ástæða til þess að vekja athygli á því að á þessum umrótstímum hafa mörg sjávarútvegsfyrirtæki gripið til gengisvarna sem gera það að verkum að lækkun á gengi krónunnar skilar sér ekki að fullu í þeirra vasa. Því má ætla að verðmætisþróun einstakra fyrirtækja, vegna útflutnings á þorski, geti verið mismunandi og sé ekki endilega í samræmi við tölur um heildar aflaverðmæti, sem ég vísa hér til.“

Þá varpaði ráðherra ljósi á hvernig aflaheimildir hafa verið fluttar milli fiskveiðiára sl. tvenn fiskveiðiáramót. „Margir hafa sagt við mig að fiskveiðiárið sem nú er nýhafið verði mun erfiðara en það síðasta vegna þess að aflamark sem fært var á milli fiskveiðiáranna 2007-2008 hafi verið mun meira á milli fiskveiðiáranna 2008-2009.  Þetta er í sjálfu sér rétt.  Þó er ástæða til þess að vekja athygli á því að þarna munar ekki jafn miklu og ég og margir höfðum talið. Þegar við skoðum til dæmis fært aflamark í þorski á milli fiskveiðiáranna 2007 og 2008 þá nemur það um 9.300 tonnum en rétt rúmum 6.000 tonnum við síðustu fiskveiðiáramót.“

 

Ennfremur fjallaði Einar Kristinn um gengi krónunnar, stakkaskiptin sem orðið hafa á einu ári og áhrifin á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. „Sú mikla veiking íslensku krónunnar sem orðið hefur upp á síðkastið er auðvitað alvarlegt mál. Og þótt oft hafi verið kallað eftir veikingu krónunnar úr sölum sjávarútvegsins, þá er það ekki svo nú. Þessi staða krónunnar er of veik og er ekki að mati nokkurs þeirra sem um fjallar; jafnvægisgengi. Hagsmunir íslensks sjávarútvegs liggja þess vegna í því að gengi krónunnar verði sterkara en nú og ró skapist í fjármálaumhverfinu sem hefur svo mikil áhrif á stöðu mála í efnahagslífinu hér á landi. Svona veikt gengi er því fremur ógn en tækifæri. [...] Ofursterka krónan var okkur hið versta fótakefli í fyrra. Núna kallar sjávarútvegurinn eins og annað atvinnulíf eftir stöðugleika og sterkara gengi.“

 

Ræðan í heild

Sjá myndir

 

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 26. september 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta