Hoppa yfir valmynd
30. september 2008 Forsætisráðuneytið

Viljayfirlýsing undirrituð um samstarf ríkis og sveitarfélaga um atvinnuþróun á nærsvæði Keflavíkurflugvallar

Geir H. Haarde forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, Kristján L. Möller samgönguráðherra og fulltrúar sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum, Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga, undirrituðu í dag í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík viljayfirlýsingu um samstarf um atvinnuþróun í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Samstarfið byggir á þeirri sérstöðu sem felst í nálægð alþjóðaflugvallarins.

Þegar bandaríska varnarliðið hvarf á braut haustið 2006 stofnaði ríkið Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. og fól því að annast umsýslu fasteigna ríkisins á svæðinu og önnur verkefni sem tengjast framtíðarþróun þess. Sveitarfélögin á Suðurnesjum eiga fulltrúa í stjórn þróunarfélagsins. Nú er stefnt að því að auka enn frekar samstarf ríkis og sveitarfélaga, auk þess sem gert er ráð fyrir öflugri aðkomu Keflavíkurflugvallar ohf. sem tekur til starfa um næstu áramót. Lykilatriði er að ríki og félög og stofnanir í þess eigu annars vegar og sveitarfélög hins vegar vinni saman að því að laða nýja fjárfesta að svæðinu. Reynsla erlendis frá sýnir að þannig geta alþjóðlegir flugvellir orðið mikilvægur aflvaki hagvaxtar. Umhverfis Keflavíkurflugvöll er eitt stærsta ónýtta landsvæði í nágrenni alþjóðaflugvallar í Evrópu og skilyrði til vaxtar og þróunar því einstök.

Í viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga kemur fram að stefnt skuli að gerð samstarfssáttmála þar sem þróunarsvæði verði skilgreint, afmörkuð verði sú atvinnustarfsemi sem laða eigi að svæðinu, ákveðið hvernig kostnaði og tekjum verður skipt og skipulagsmál samhæfð.

Stefnt er að því að ljúka samningaviðræðum fyrir 1. janúar 2009. Til að halda utan um samningaferli næstu mánaða hefur verið ráðinn verkefnisstjóri, Björg Ágústsdóttir lögfræðingur og ráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta.

Reykjavík 30. september 2008

Fylgiskjöl

Meginatriði og forsendur, Fylgiskjal með viljayfirlýsingu um samstarf ríkis og sveitarfélaga um atvinnuþróun á nærsvæði Keflavíkurflugvallar

Viljayfirlýsing um samstarf ríkis og sveitarfélaga um atvinnuþróun á nærsvæði Keflavíkurflugvallar



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta